Stöðvuðum Messi, Kane er næstur

Harry Kane er kominn með sex mörk á mótinu.
Harry Kane er kominn með sex mörk á mótinu. AFP

Zlatko Dalic, þjálfari króatíska landsliðsins í knattspyrnu, vonast til að varnarmenn sínir haldi uppteknum hætti er Króatía mætir Englandi í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi á miðvikudaginn kemur.

Miðverðirnir tveir, Domagoj Vida og Dejan Lovren, hafa nú þegar átt góða frammistöðu gegn Lionel Messi og Argentínu og Christian Eriksen og Danmörku. Næst þurfa þeir að stöðva markahæsta mann mótsins og einn besta framherja Evrópu; Harry Kane.

„Það verður erfitt, hann er besti leikmaður Englands ásamt Raheem Sterling,“ sagði Dalic á blaðamannafundi í dag.

„Dejan Lovren þekkir hann vel úr enska boltanum og ég hef ekki áhyggjur af þessu. Við stöðvuðum Messi og Eriksen og við munum reyna að gera slíkt hið sama með Kane.“

Zlatko Dalic hefur trú á sínum mönnum.
Zlatko Dalic hefur trú á sínum mönnum. AFP
mbl.is