Erfitt fyrir Thierry Henry

Thierry Henry er aðstoðarþjálfari Belga.
Thierry Henry er aðstoðarþjálfari Belga. AFP

Hugo Lloris, markmaður og fyrirliði franska landsliðsins í fótbolta, segir að það verði erfitt fyrir Thierry Henry að vera á hliðarlínunni er Belgía og Frakkland mætast í undanúrslitum á HM í Rússlandi annað kvöld. 

Henry er aðstoðarþjálfari belgíska liðsins, en hann er markahæsti leikmaður í sögu franska landsliðsins með 51 mark. Hann varð á sínum tíma Evrópu- og heimsmeistari með Frakklandi og lék alls 123 landsleiki fyrir þjóð sína. 

„Ég var það heppinn að fá að spila með Henry í landsliðinu, hann var rosalegur leikmaður. Það verður skrítið að sjá hann á hliðarlínunni með belgíska liðinu. Hjartað hans verður klofið á morgun og þetta verður erfitt fyrir hann,“ sagði Lloris. 

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, tók í sama streng. „Auðvitað verður þetta erfitt fyrir hann en svona er þetta stundum. Hann vissi að þessi staða gæti komið upp þegar hann tók starfinu. Það verður gaman að sjá hann á morgun, en þetta verður skrítið,“ sagði þjálfarinn. 

mbl.is