Englendingar með vinninginn gegn Króötum

Fyrirliðarnir Luka Modric og Harry Kane.
Fyrirliðarnir Luka Modric og Harry Kane. AFP

England og Króatía mætast í áttunda sinn á fótboltavellinum í kvöld þegar þau eigast við í undanúrslitunum á heimsmeistaramótinu á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu.

Í leikjunum sjö sem England og Króatía hafa ást við hafa Englendingar unnið fjóra leiki, Króatar tvo og liðin hafa gert jafntefli einu sinni.

Liðin hafa einu sinni áður mæst á stórmóti. Það var í úrslitakeppni EM árið 2004 þar sem Englendingar fögnuðu 4:2 sigri í riðlakeppninni.

Síðasti sigurleikur Króata gegn Englendingum leit dagsins ljós á Wembley í nóvember 2007 í undankeppni fyrir EM 2008. Króatar höfðu betur 3:2 og ósigurinn gerði það að verkum að Englendingar komust ekki í lokakeppnina.

Sigurliðið í leiknum í kvöld mætir Frökkum í úrslitaleik HM sem fram fer á Luzhniki-vellinum í Moskvu á sunnudaginn en tapliðið leikur við Belga í leiknum um bronsverðlaunin í St. Petersburg á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert