Hefur verið besti miðjumaður heims lengi

Casemiro og Neymar á æfingu með brasilíska landsliðinu fyrr í …
Casemiro og Neymar á æfingu með brasilíska landsliðinu fyrr í mánuðinum. AFP/Vincenzo Pinto

Neymar, leikmaður brasilíska landsliðsins í knattspyrnu karla, hrósaði liðsfélaga sínum Casemiro í hástert eftir að sá síðarnefndi skoraði glæsilegt sigurmark gegn Sviss á HM í Katar í dag.

Casemiro tryggði 1:0-sigur á Sviss með frábæru skoti sem hafnaði í bláhorninu fjær. Kom markið sjö mínútum fyrir leikslok og með sigrinum var um leið sæti í 16-liða úrslitum HM í höfn.

Varnartengiliðurinn lék afar vel í dag þar sem hann verndaði öftustu línu með myndarbrag og lagði auk þess upp annað mark, fyrir Vinícius Júnior fyrr í leiknum, með laglegri stungusendingu en það var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum.

Neymar, sem gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla, var ánægður með Casemiro í leikslok.

„Casemiro hefur verið besti miðjumaðurinn í heiminum um langt skeið,“ skrifaði Neymar á Twitter-aðgangi sínum.

mbl.is