Vissi Enrique ekki hvernig staðan var?

Luis Enrique ræðir áhyggjufullur við Dani Carvajal í leiknum við …
Luis Enrique ræðir áhyggjufullur við Dani Carvajal í leiknum við Japan í gær. AFP/Javier Soriano

Luis Enrique, þjálfari spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekki hafa haft hugmynd um að lið sitt hefði verið jafn nálægt því að falla út keppni á heimsmeistaramótinu og raunin var í gær.

Þegar Kostaríka komst yfir gegn Þýskalandi um miðjan síðari hálfleikinn í  gær, 2:1, á sama tíma og Japan var komið yfir gegn Spáni, 2:1, var staðan sú að ef það hefðu orðið lokatölurnar hefðu Spánverjar fallið út ásamt Þjóðverjum en Kostaríka fylgt Japan í sextán liða úrslitin.

Þetta entist reyndar ekki nema í þrjár mínútur því þá voru Þjóðverjar búnir að jafna í 2:2 og Spánverjar voru komnir upp í annað sæti riðilsins á ný.

Enrique var spurður af blaðamanni eftir ósigurinn gegn Japan í gærkvöld hvernig honum hefði liðið þegar þessi staða var kom upp en spurningin kom Spánverjanum í opna skjöldu.

„Ha, hvað áttu við. Vorum við úti í þrjár mínútur, hvers vegna?" spurði Enrique blaðamanninn á móti. 

„Vissirðu ekki af þessu?" spurði blaðamaðurinn. „Nei, ég var ekkert að hugsa um hinn leikinn, ég einbeitti mér bara af mínum leik. Vorum við á leið út úr keppninni á einhverjum tímapunkti? Hvenær? Hvers vegna? Komst Kostaríka í 2:1? Ja hérna! Jæja, frábært. Auðvitað, ég vissi ekkert af þessu, ég hafði ekki hugmynd.

Ég kom ekki hingað til að velta vöngum yfir einhverju. Ég er óhress með að við skyldum tapa fyrir Japan. Ég vil að mitt lið sýni sitt besta í öllum leikjum og vinni alla leiki. Ef ég hefði vitað í þrjár mínútur að við værum á leið út úr keppninni hefði ég fengið hjartaáfall," sagði Luis Enrique.

Vangaveltur voru uppi í gærkvöld um að Spánverjar hefðu ekki haft áhuga á að jafna metin gegn Japan á lokamínútunum í gærkvöld, vegna þess að þeir vildu frekar mæta Marokkó en Króatíu í sextán liða úrslitunum, og í framhaldi af því Portúgal frekar en Brasilíu.

En ljóst er að leikmenn spænska liðsins voru meðvitaðir um það sem var í gangi í leik Kostaríka og Þýskalands. Jordi Alba kom inn á sem varamaður á 67. mínútu og sagði liðsfélögum sínum hvað væri í gangi.

„Ég leit á markatöfluna og sá um miðjan síðari hálfleik að við værum á leið út úr keppninni. Jordi kom inn á og sagði við okkur að við yrðum að jafna metin, við værum úr leik. Við vildum skora en okkur tókst það ekki," sagði miðjumaðurinn Pedri.

The Guardian fjallar ítarlega um þetta og veltir vöngum yfir því hvort Luis Enrique hafi sagt satt í þessu viðtali eða hvort þetta hefði allt verið leikaraskapur hjá þjálfaranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert