Hans Óttar Lindberg: Svolítið sérstakir leikir

Hans Óttar Lindberg.
Hans Óttar Lindberg. AFP

Hans Óttar Lindberg, Íslendingurinn í danska landsliðinu í handknattleik, segir alltaf gaman að mæta Íslendingum en mbl.is spjallaði við hornamanninn frábæra eftir sigur Dana á móti Sílemönnum á HM í gærkvöld.

Íslendingar og Danir eigast við í Sevilla í kvöld en Danir, sem eru Evrópumeistarar, hafa unnið alla þrjá leiki sína á mótinu og eru með eitt þeirra liða sem þykir líklegt til afreka á mótinu.

„Ég held að þetta verði spennandi leikur, eins og er jafnan þegar Danmörk og Ísland eigast við, og mjög erfiður fyrir okkur eins og þeir eru alltaf þegar við mætum Íslandi. Íslendingar hafa góðu liði á að skipa og þó svo að það vanti sterka menn í liðið eru þar virkilega góðir leikmenn. Til að mynda Guðjón Valur og Aron, sem báðir eru frábærir leikmenn.

Þó svo að við höfum átt frekar auðveldan leik á meðan Íslendingar spiluðu hörkuleik held ég að það hafi ekki nein áhrif þegar út í leikinn er komið,“ sagði Hans Óttar við mbl.is.

Hans Óttar fæddist í Danmörku og hefur búið þar alla sína tíð en foreldrar hans, Tómas Erling Lindberg og Sigrún Sigurðardóttir, eru bæði Íslendingar og léku handbolta með FH á sínum yngri árum. Hans Óttar var íslenskur ríkisborgari þar til hann var 18 ára gamall en þá skipti hann um ríkisfang.

„Ég hef spilað mörgum sinnum á móti Íslandi og þetta eru leikir sem eru alveg eins og leikir á móti öðrum liðum. Þeir eru kannski svolítið sérstakir þar sem fjölskylda mín er íslensk og frænka mín (Hildur Sigurðardóttir, innskot blaðamanns) er stödd hérna úti að fylgjast með mótinu. Foreldrar mínir eru í Danmörku og fylgjast þar með en kannski koma þeir til Barcelona ef við förum þangað,“ sagði Hans Óttar en hann hefur verið talinn í hópi allra bestu hægri hornamanna heims undanfarin ár og er sem stendur markahæstur í þýsku 1. deildinni í handknattleik þar sem hann leikur með Hamborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert