Viljum koma á óvart

Aron Pálmarsson er fyrirliði í fyrsta sinn á stórmóti.
Aron Pálmarsson er fyrirliði í fyrsta sinn á stórmóti. Ljósmynd/Uros Hocevar

„Króatar eru með eitt besta lið Evrópu og ég held að það henti okkur bara ágætlega að hefja keppnina gegn þeim. Ég er bara spenntur fyrir leiknum,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, við Morgunblaðið í gær eftir síðustu æfingu liðsins fyrir upphafsleikinn á heimsmeistaramótinu gegn Króötum í Ólympíuhöllinni í München. Flautað verður til leiks klukkan 17 í dag.

„Króatar eiga fjölda góðra leikmanna og eru þar af leiðandi með mjög sterkt lið á pappírunum. Þeir leika alltaf sinn árangursríka handbolta. Undirbúningur okkar hefur verið góður og ég tel okkur vita vel út í hvað við erum að fara. Nú er það okkar að sýna hvað í okkur býr,“ sagði Aron, sem leikur sinn 130. landsleik í kvöld, þann fyrsta sem fyrirliði á stórmóti.

„Það verður mikil áskorun fyrir mig að leiða liðið okkar fram á völlinn og ég hef fulla trú á að allir ungu strákarnir standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra. Þeir eru hörkugóðir í handbolta og hafa engu að tapa. Ég el með mér þá von að þeir geti komið á óvart og vakið athygli fyrir frammistöðu sína í þessum leik eins og öðrum. Það búast kannski ekki margir við miklu frá okkur. Þeir eru góðir og ég hef engar áhyggjur af þeim. Stefnan er að koma á óvart í fyrsta leik. Við höfum trú á að við getum unnið Króata en til þess þarf svo sannarlega margt að ganga upp hjá okkur,“ sagði Aron, sem þekkir vel til landsliðs Króata og einstakra leikmanna liðsins.

„Króatar gera fá mistök. Segja má að þeim líði afar vel með boltann. Það verður okkar áskorun að gera þeim eins erfitt fyrir og mögulegt er. Ég tel leikskipulag okkar gott og þess vegna skiptir miklu máli að við náum að halda okkur við það eins og kostur er,“ sagði Aron ennfremur og bendir m.a. á að varnarleikur Króata hafi oft gert andstæðingum þeirra mjög erfitt fyrir.

Nánar er rætt við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 17 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert