Sjö marka tap gefur ekki rétta mynd

Spánverjinn Raúl Entrérríos og Ólafur Andrés Guðmundsson eigast við í ...
Spánverjinn Raúl Entrérríos og Ólafur Andrés Guðmundsson eigast við í leiknum í kvöld. AFP

„Að mínu mati eigum við að geta unnið Spánverja því við erum fljótari á fótunum og sneggri en þeir. Þess vegna er sjö marka tap mjög svekkjandi,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem lék síðustu 20 mínúturnar gegn Spánverjum í kvöld í 32:25 tapi íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Ólympíuhöllinni í München.

Gísli Þorgeir gerði mikinn usla í spænsku vörninni með hraða sínum og snerpu. „Mér þykir sjö marka munur ekki gefa rétta mynd af gangi leiksins. En við gerðum oft slæm mistök þegar við vorum að komast inn í leikinn sem varð þess valdandi að Spánverjar fengu hröð upphlaup sem lauk oftar en ekki með marki. Þeir skoruðu of mörg einföld mörk og þar sem skildi á milli að mínu mati,“ sagði Gísli Þorgeir sem var að koma við sögu í sínum fyrsta leik á stórmóti.

„Kannski vantaði okkur á tíðum meiri áræðni og horfa betur í átt að markinu.“

Gísli Þorgeir sagðist hafa verið staðráðinn í að koma inn í leikinn af krafti ef hann fengi tækifæri og víst er að hann nýtti það vel. „Ef maður er ekki á fullu allan leikinn þá hefur maður ekkert erindi í þennan bransa. Það er nokkuð sem sá gamli [Kristján Arason, faðir Gísla] hefur hamrað inn í hausinn á mér. Ef maður er nógu grimmur og ákveðinn þá gerast hlutirnir,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina