Sigvaldi rauf 3.000 marka múrinn

Sigvaldi Björn Guðjónsson, leikmaður Elverum og íslenska landsliðsins.
Sigvaldi Björn Guðjónsson, leikmaður Elverum og íslenska landsliðsins. Ljósmynd/Elverum

Sigvaldi Björn Guðjónsson náði þeim áfanga í viðureign Íslands og Barein á heimsmeistaramótinu í handknattleik í fyrradag að skora 3.000. mark íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti.

Sigvaldi Björn, sem er að taka þátt í HM í fyrsta sinn, náði þessum áfanga þegar hann skoraði 22. mark leiksins á 39. mínútu og kom Íslandi 11 mörkum yfir, 22:11. Um leið var þetta fyrsta mark Sigvalda í leiknum en síðar bætti hann tveimur við.

Alls hefur íslenska landsliðið skorað 3.014 mörk í 121 leik á HM frá því að fyrsti leikurinn fór fram á HM 1958 í Herman Giesler Halle í Magdeburg í Þýskalandi. Leikið var við Tékkóslóvakíu og tapaði íslenska liðið með 10 marka mun, 27:17. Fyrsta mark Ísland á HM skoraði Gunnlaugur Hjálmarsson. Það var einnig fyrsta mark leiksins. 

Íslenska landsliðið hefur fengið á sig 2.937 mörk á HM.

Sigvaldi Björn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn japanska landsliðinu á HM í dag Fylgst verður með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is