Sviss tekur sæti Bandaríkjanna á HM

Bandaríska landsliðið í handknattleik.
Bandaríska landsliðið í handknattleik. Ljósmynd/@olympicchannel

Sviss hefur verið boðið að taka sæti Bandaríkjanna á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst á morgun í Egyptalandi.

Þetta staðfesti IHF, Alþjóðahandknattleikssambandið, núna rétt í þessu en alls greindust átján smit í kringum landslið Bandaríkjanna í dag.

Sviss var önnur varaþjóð inn á mótið á eftir Norður-Makedóníu en eftir að Tékkland ákvað að draga sig úr keppni fengu Norður-Makedónar sæti Tékklands.

Sviss mun þá leika í E-riðli keppninnar ásamt Austurríki, Frakklandi og Noregi en fyrsti leikur Sviss verður gegn Austurríki á fimmtudaginn í Giza.

mbl.is