Landsliðsmennirnir rækilega skimaðir

Arnór Þór Gunnarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins á HM.
Arnór Þór Gunnarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins á HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik æfði í fyrsta sinn í gær eftir komuna til Egyptalands en fyrsti leikur liðsins á heimsmeistaramótinu verður annað kvöld gegn Portúgal. Allir leikmenn tóku þátt í æfingunni, þar á meðal Alexander Petersson, sem fékk höfuðhögg í síðustu viku.

„Við tókum klukkutíma æfingu í höllinni í dag og náðum að fara yfir það sem við ætluðum okkur. Vörnin var tekin fyrir og sóknin verður tekin fyrir á morgun [í dag]. Það eru allir vel stemmdir,“ sagði fyrirliðinn Arnór Þór Gunnarsson þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Arnór sat þá úti á verönd fyrir utan hótelið í Kaíró eftir að liðið hafði snætt kvöldverð en janúarmánuður virðist ekki beinlínis kuldalegur í norðurhluta Afríku.

„Það voru 23 til 24 gráður í dag og sól. Á kvöldin virðist hitinn vera um 15 gráður. Veðrið er gott, hótelið flott og maturinn góður. Það er ekki hægt að segja annað en að mjög vel hafi verið tekið á móti okkur hérna. Hér er allt upp á tíu.“

Keppnishöllin þar sem Ísland mun spila á næstunni heitir New Capital Sports Hall og er í um korters akstursfjarlægð frá liðshótelinu. Höllin er splunkuný og var opnuð á síðasta ári.

„Þetta var svolítið eins og að koma inn í nýjan bíl. Lyktin í höllinni var eiginlega þannig. Þetta er rosalega flott höll og hefði verið skemmtilegt að spila í henni troðfullri vegna þess að þetta er gryfja. En út af heimsfaraldrinum er eðlilegt að engir áhorfendur séu leyfðir. Bæði fyrir okkur leikmennina sem og áhorfendur. Við tökum því bara. Margir hafa spilað víða í Evrópu í allan vetur án áhorfenda og eru farnir að venjast því. Hvort sem það erum við Íslendingarnir eða leikmenn annarra liða.“

Tímafrekt ferðalag

Ferðalagið til Egyptalands gekk vel að sögn Arnórs þótt það hafi tekið sinn tíma en íslenski hópurinn fór utan á mánudagsmorgun eða morguninn eftir að liðið lagði Portúgal að velli í undankeppni EM á Ásvöllum 32:23.

„Þetta var langur dagur. Við vöknuðum um klukkan 4:30 og vorum komnir upp á hótel í Egyptalandi klukkan 23 að staðartíma eða klukkan 21 að íslenskum tíma. Ferðalagið sjálft gekk samt mjög vel fyrir sig. Við flugum til Kaupmannahafnar og þaðan vorum við fjóra tíma til Egyptalands. Þegar þangað var komið gátum við farið beint úr vélinni út í okkar eigin rútu og aksturinn á hótelið var um klukkutími. Þá gátum við borðað og vorum líklega sofnaðir um tvöleytið um nóttina. Þótt þetta væri langur dagur var alla vega ekkert vesen á leiðinni,“ sagði Arnór en hann og aðrir í íslenska hópnum voru prófaðir tvívegis vegna kórónuveirunnar við komuna til Egyptalands.

Viðtalið við Arnór í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert