Jafnspenntur og fyrir alla leiki í þrjátíu ár

Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands.
Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands. Ljósmynd/@DHB_Teams

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands segist vera jafnspenntur fyrir fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi og þegar hann byrjaði að þjálfa fyrir þrjátíu árum.

Þýskaland mætir Úrúgvæ á morgun og það verður fyrsti leikur liðsins undir stjórn Alfreðs á stórmóti.

„Ég hef verið jafnspenntur fyrir alla leiki á þessum þrjátíu árum og ég hlakka gríðarlega til þess að hefja mótið," sagði Alfreð á fréttamannafundi í dag.

„Úrúgvæ spilar öðruvísi handbolta en við eigum að venjast, með kraftmikilli og hreyfanlegri 6/0 vörn, góðum markverði, og gríðarlega löngum sóknum, rétt eins og við fengum að kynnast gegn Bosníu í nóvember. Við einbeitum okkur að okkar leik, verðum að vera afar þolinmóðir í sóknarleiknum og láta ekkert pirra okkur, og spila af miklum krafti eins og við gerðum gegn Austurríki á dögunum," sagði Alfreð, sem áður hefur verið þjálfari á heimsmeistaramóti með íslenska landsliðið árið 2007.

Í A-riðlinum eru Þýskaland, Ungverjaland, Úrúgvæ og Grænhöfðaeyjar. „Við eigum að vinna Úrúgvæ og Grænhöfðaeyjar og verðum að nýta þá leiki til að bæta okkar leik og þróa taktíkina. Þrátt fyrir sigurleikina tvo gegn Austurríki í síðustu viku vitum við ekki enn nákvæmlega hvar við stöndum í dag. Einu sterku andstæðingar okkar eru Ungverjar og eftir þann leik vitum við meira," sagði Alfreð.

mbl.is