Þurfa að gefa leikinn á HM í dag

Lið Grænhöfðaeyja náði að spila gegn Ungverjum á HM en …
Lið Grænhöfðaeyja náði að spila gegn Ungverjum á HM en þarf nú að gefa leikinn í dag. AFP

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu í handknattleik eru búnir að fá ódýr stig í sínar hendur því lið Grænhöfðaeyja getur ekki mætt til leiks gegn þeim á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi.

Liðin áttu að mætast í dag í annarri umferð riðlakeppni mótsins en Grænhöfðaeyjar geta ekki teflt fram tíu leikmönnum, sem er lágmarkið, vegna fjölda kórónuveirusmita í þeirra röðum. Alls eru 13 leikmenn af 22 hjá þeim greindir með smit og þar með endar leikurinn 10:0 fyrir Þýskaland.

Þjóðverjar eru þar með komnir með fjögur stig og formlega búnir að tryggja sér sæti í milliriðlakeppni mótsins.

Grænhöfðaeyjar eiga að mæta Úrúgvæ í lokaleik riðlakeppninnar á mánudaginn og geti liðið ekki mætt til hans verður það sent heim frá Egyptalandi og tekur ekki frekari þátt í mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert