Shaq sendi línumanni Kongó kveðju

Gauthier Mvumbi skorar gegn heims- og ólympíumeisturunum frá Danmörku.
Gauthier Mvumbi skorar gegn heims- og ólympíumeisturunum frá Danmörku. AFP

Hinn íturvaxni línumaður Kongó, Gauthier Mvumbi, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu á HM í handknattleik í Egyptalandi. 

Mvumbi er fæddur árið 1994 og samkvæmt heimasíðu mótsins er hann 192 cm og 110 kg. Er það líklega varlega áætlað. 

Gauthier Mvumbi þarf að hafa fyrir því að spretta út …
Gauthier Mvumbi þarf að hafa fyrir því að spretta út af í skiptinguna. AFP

Mvumbi var valinn maður leiksins á móti Barein í síðustu umferð riðlakeppninnar en Kongó hafnaði í fjórða og neðsta sæti í D-riðli en þar tapaði liðið fyrir Danmörku, Argentínu og Barein. Þá skoraði Mvumbi fjögur mörk gegn sterku liði Dana.

Mvumbi hefur verið kallaður Shaq handboltans og er þar átt við Shaquille O´Neal sem varð fjórfaldur meistari í NBA-deildinni í körfuknattleik á sínum tíma og fór létt með að ryðja flestum andstæðingum úr vegi.  

Samanburðurinn barst Shaq greinilega til eyrna og sendi hann Mvumbi kveðju vegna þessa eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.  

Gauthier Mvumbi var valinn maður leiksins í tapleiknum gegn Barein …
Gauthier Mvumbi var valinn maður leiksins í tapleiknum gegn Barein sem Halldór Jóhann Sigfússon stýrir. AFP
mbl.is