Megum illa við því að missa tvo heimsklassa leikmenn

Bjarki Már Elísson í færi í kvöld.
Bjarki Már Elísson í færi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við förum með allt of mikið af dauðafærum í seinni hálfleik,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 30:35-tap gegn Svíþjóð í milliriðli II á heimsmeistaramótinu í Gautaborg í Svíþjóð í kvöld.

„Við byrjum báða hálfleikana illa og það fór mikil orka í það að elta þá. Við söknuðum Arons og Ómars klárlega og þó við séum með breidd þá megum við illa við því að missa tvo heimsklassa leikmenn úr liðinu.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í dag.
Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er högg fyrir okkur en við reyndum að gera gott úr þessu og við ætluðum okkur sigur en því miður tókst það ekki í kvöld,“ sagði Bjarki.

Alls voru rúmlega 3.000 Íslendingar á leiknum í kvöld og þeir studdu liðið áfram frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.

„Íslensku stuðningsmennirnir voru algjörlega geggjaðir og við áttum höllina þegar að við vorum að ná að minnka forskotið þeirra. Við hefðum klárlega getað nýtt okkur það betur. Við ætluðum að vinna þennan leik og ég er ekkert farinn að pæla í framhaldinu“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert