Svíar komnir í undanúrslitin

Lukas Sandell skorar fyrir Svía gegn Egyptum í leiknum í …
Lukas Sandell skorar fyrir Svía gegn Egyptum í leiknum í kvöld. AFP/Jonathan Nackstrand

Svíar eru komnir í undanúrslitin á heimsmeistaramóti karla í handknattleik eftir sigur á Egyptum í átta liða úrslitunum í Stokkhólmi í kvöld, 26:22.

Egyptar voru yfir fyrstu 20 mínúturnar en Svíar áttu frábæran lokakafla í fyrri hálfleik þegar þeir skoruðu sex síðustu mörk hans og voru yfir þegar flautað var til leikhlés, 14:9.

Þeir gáfu Egyptum ekki færi á að komast inn í leikinn framan af síðari hálfleik og staðan var 21:15 um miðjan síðari hálfleik. Egyptar gerðu áhlaup og minnkuðu muninn í 21:18. Svíar svöruðu með því að komast í 24:19 þegar sex mínútur voru eftir.

Niclas Ekberg skoraði sex mörk fyrir Svía, Lukas Sandell og Eric Johansson fjögur mörk hvor. 

Hassan Kaddah og Mohsen Mahmoud voru markahæstir Egypta með fimm mörk hvor.

Svíar mæta Frökkum eða Þjóðverjum í undanúrslitunum á föstudaginn en Egyptar fara í keppnina í fimmta til áttunda sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina