Leikmennirnir óhressir með framkvæmd á HM

Glenn Solberg þjálfari og leikmenn sænska liðsins fylgjast með á …
Glenn Solberg þjálfari og leikmenn sænska liðsins fylgjast með á varamannabekknum í bronsleiknum gegn Spáni. AFP/Jonathan Nackstrand

Sænsku landsliðsmennirnir í handknattleik voru afar ósáttir við aðbúnað sinn og fleira sem kom að framkvæmd heimsmeistaramóts karla sem lauk í Stokkhólmi í gærkvöld.

Danir urðu þá heimsmeistarar eftir sigur á Frökkum en Svíar höfnuðu í fjórða sæti eftir ósigur gegn Spánverjum í leiknum um bronsverðlaunin.

Aftonbladet segir í dag að leikmannaráð sænska liðsins hafi skrifað kvörtunarbréf til sænska handknattleikssambandsins og til framkvæmdastjórnar heimsmeistaramótsins.

Leikmennirnir eru sagðir hafa verið afar óhressir með tvennt varðandi framkvæmd mótsins.

Annars vegar hafi maturinn sem þeim var boðið upp á í Gautaborg, þegar þeir dvöldu þar í tvær vikur í riðlakeppninni og milliriðlinum ekki verið upp á marga fiska. Til dæmis hafi sami fiskrétturinn verið á boðstólum tólf daga í röð og leikmenn sænska liðsins hafi verið tíðir gestir á pítsu- og hamborgarastöðum í nágrenninu til að borða sig sadda á meðan á dvöl þeirra í Gautaborg stóð.

Hins vegar hafi fjölskyldum leikmanna verið boðið upp á óviðunandi aðstæður á úrslitahelginni í Stokkhólmi. Hver leikmaður fékk fjóra miða fyrir sig en þeir sem keyptu aðgöngumiða fyrir stærri fjölskylduhópa þurftu að greiða hátt verið fyrir, auk þess sem þeir miðar hefðu verið fyrir sæti mjög ofarlega á Tele2 leikvanginum þar sem nær ómögulegt hafi verið að sjá völlinn sem spilað var á. 

Ekki bætti það andann hjá sænsku leikmönnunum í gær þegar þeir heyrðu framkvæmdastjóra keppninnar lýsa því yfir að sænska handknattleikssambandið myndi hagnast um 10 milljónir sænskra króna á mótshaldinu. Aftonbladet segir að leikmönnunum finnist það frekar hart að lýsa yfir miklum gróða sem að hluta væri tilkominn með því að svíkja þá um mat og miða.

Formaðurinn, Krister Bergström, sagði við Aftonbladet að hann vildi ekki tjá sig um kvartanir leikmannanna fyrr en hann hefði rætt við þá sjálfur á fundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert