„Jussi er betri þjálfari en ég“

Gauti Þormóðsson fylgist með leiknum í kvöld.
Gauti Þormóðsson fylgist með leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, kom í viðtal eftir að lið hans hafði tapað úrslitaeinvígi gegn SA í íshokkí í kvöld. Vitanlega var þungt hljóð í Gauta en lið Esju verður lagt niður og spilar ekki með á næsta íslandsmóti. Leikurinn í kvöld var Esjumönnum erfiður þar sem þeir lentu fljótt 2:0 undir og voru komnir 4:0 undir þegar þeim tókst loks að skora. Lauk leiknum með sigri SA 6:2 og unnu Akureyringar því einvígið 3:0.

Þetta byrjaði ekki nógu vel hjá ykkur í kvöld og eftir það þá voruð þið alltaf að elta.

„Mér fannst við spila þennan leik vel og ég er stoltur af okkar frammistöðu. Þeir fengu þessi tvö mörk á upphafsmínútunum. Mér fannst þau í ódýrari kantinum og það bjó til smá brekku. Það var slæmt að tapa leik númer tvö. Hann var hnífjafn og hefði getað endað með sigri okkar. Þetta voru allt jafnar viðureignir en í ár datt meira með SA. Þetta var svipað í fyrra þegar við unnum þá 3:0 í jöfnum leikjum þar sem meira datt með okkur. Þetta snérist bara við í ár.“

Þessi lið eru mjög jöfn og hending að annað liðið nái þremur sigurleikjum í röð.

„Það er alveg satt. Ætli munurinn liggi ekki bara í þjálfurunum. Ég tel að mann fyrir mann þá séum við með betri mannskap en SA. Jussi (Sipponen) er bara betri þjálfari og nær að spila betur úr sínum mannskap. Þeir eru vel skipulagðir, með flotta liðsheild og góða taktík.“

En þú ert þjálfari Esju, ekki satt?

„Jú, en Jussi er betri þjálfari en ég. Ég er með betri hóp á pappírunum og betri einstaklinga. Það er stundum ekki nóg“ sagði Gauti og leyfði sér smá glettni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert