Sannfærð eftir símtal við Íslandsmeistara frá 2015

Aaryn Ellenberg-Wiley með boltann í leik með Snæfelli.
Aaryn Ellenberg-Wiley með boltann í leik með Snæfelli. mbl.is/Árni Sæberg

Aaryn Ellenberg-Wiley hafði ekki mikið velt fyrir sér möguleikanum á að spila körfubolta á Íslandi þegar Snæfell hafði samband í haust. Hér hefur hún hins vegar staðið sig afar vel með Íslandsmeisturunum og skorað að meðaltali 27,6 stig í leik og tekið 8,5 fráköst.

„Ég held að ég hafi staðið mig nokkuð vel. Ég tel mig eiga enn meira inni, en að mestu leyti hef ég staðið mig vel og skilað því sem liðið ætlast til af mér. Við höfum spilað vel hingað til, þó að stöku leikur hafi ekki verið neitt frábær, og þegar allir leggja sitt af mörkum erum við frábært lið,“ sagði Ellenberg-Wiley við Morgunblaðið í gærmorgun. Hún var þá nývöknuð og örlítið þreytt eftir Ofurskálaráhorf næturinnar og góðan leik í sigri á Grindavík í fyrrakvöld þar sem hún skoraði 26 stig og tók 10 fráköst, í lokaleik 20. umferðar Dominos-deildarinnar.

Aaryn, eins og hún er kölluð, er 24 ára gömul. Hún var á mála hjá WNBA-liði Chicago Sky árið 2014 og á að baki leiki fyrir yngri landslið Bandaríkjanna. Hún lék svo eina leiktíð með Basket Konin í Póllandi og aðra með Flying Foxes í Austurríki. Hún var meðal annars valin besti leikmaður austurrísku deildarinnar af Eurobasket.com og bæði besti bakvörður og varnarmaður í svokallaðri Mið-Evrópudeild, sem hún lék einnig í með Flying Foxes.

Vinkonan dásamaði Hólminn

Ferilskráin var sem sagt í góðu lagi þegar Ingi Þór Steinþórsson varð að finna leikmann í stað Taylor Brown sem hætti skyndilega hjá Snæfelli í lok október. Aaryn tók svo ákvörðun um að koma til liðsins eftir að hafa ráðfært sig við vinkonu sína, Kristen McCarthy, sem varð Íslandsmeistari með Snæfelli árið 2015.

„Hún sagði mér frá félaginu og ég ákvað að koma. Hún sagðist hafa kunnað afskaplega vel við sig hérna og að þetta væri góður staður,“ sagði Aaryn, sem eins og fyrr segir kann nokkuð vel við sig í Hólminum og Dominos-deildinni:

Sjá allt viðtalið við Aaryn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag