Stjarnan nær í besta mann Fjölnis

Collin Pryor í leik með Fjölni.
Collin Pryor í leik með Fjölni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samið við Collin Pryor, 27 ára gamlan framherja, og mun hann leika með liðinu næsta vetur. Samkvæmt umboðsskrifstofunni Mansfield Sport gerir Pryor langtímasamning við Garðbæinga.

Pryor var lykilmaður hjá Fjölni í vetur þar sem hann var bæði stiga- og frákastahæstur. Hann skoraði að meðaltali 21,1 stig og tók 12 fráköst í leik. Pryor hefur leikið hér á landi í fjögur tímabil, öll í 1. deildinni, en hann var fyrst í tvö ár hjá FSu áður en hann skipti til Fjölnis.

Það þýðir að hann mun að öllum líkindum ekki vera talinn sem erlendur leikmaður næsta vetur og getur því Stjarnan teflt honum fram ásamt erlendum leikmanni. Samkvæmt 4+1 reglunni má aðeins einn erlendur leikmaður vera inni á velinum hjá hverju liði í einu.

mbl.is