Fín byrjun að mati Pedersen

Craig Pedersen gefur skipanir á hliðarlínunni í kvöld.
Craig Pedersen gefur skipanir á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Craig Pedersen stýrði íslenska karlalandsliðinu í körfubolta til sigurs í vináttulandsleiknum gegn Belgíu í Smáranum í kvöld, 83:76, og var nokkuð sáttur við sína menn þegar mbl.is spjallaði við hann. 

Ísland mun leika sjö vináttulandsleiki áður en liðið fer í lokakeppni EM í Helsinki í lok ágúst og var leikurinn í kvöld sá fyrsti. Ísland mætir Belgíu aftur á Akranesi á laugardaginn klukkan 17. 

„Þetta var fín byrjun á undirbúningi okkar fyrir EM. Við viljum alltaf vinna þótt um vináttuleiki sé að ræða og sérstaklega á heimavelli. Við getum skoðað nokkur atriði þar sem Belgarnir gerðu okkur erfitt fyrir í vörninni. Við getum aðlagast því og fáum til þess góðan tíma. Þess vegna er fínt að reka sig á slíkt svo snemma í ferlinu. Við gáfum öllum sem voru á skýrslu ágætan tíma til að spila og náðum því að skoða alla þá leikmenn sem er mikilvægt. Við munum einnig gera það á laugardaginn.“

Íslenskur sigur í Smáranum

Spurður um hvort einhver tilraunastarfsemi muni eiga sér stað í undirbúningsferlinu í sumar segir Pedersen að svo verði. „Já við munum bæði reyna nýja hluti í vörn og sókn. Í kvöld keyrðum við á sömu áherslum og í undankeppninni í fyrra til þess að koma okkur í gírinn. Smám saman munum við bæta við áhersluatriðum á næstu vikum,“ sagði Pedersen við mbl.is. 

mbl.is