Vitum hversu góðir við erum

Ragnar Nathanaelsson
Ragnar Nathanaelsson mbl.is/Golli

„Það er betra að byrja tímabilið 1-1 frekar en 0-2, sérstaklega eftir leikinn gegn KR þar sem við höfðum tækifærið til að byrja sterkt en klúðruðum því,“ sagði Ragnar Ágúst Nathanaelsson, leikmaður Njarðvíkur, eftir 78:74 sigur gegn Þór Þorlákshöfn í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Það var gífurlega mikilvægt, sérstaklega fyrir okkur. Við vitum hversu góðir við erum en eigum í einhverjum erfiðleikum með að sýna það á vellinum. Ég persónulega er stundum aðeins hikandi í vörninni og að hjálpa of mikið en við vitum hvað þarf að bæta og sem betur fer eru bara tvær umferðir búnar af tímabilinu.“

Ragnar var snemma leiks kominn í villu vandræði en hann lét það ekki á sig fá.

„Nei ég er „soddan“ villupési, ég er vanur því. Maður má ekki ofhugsa það hvort sem maður er sammála dómaranum eða ekki, þeir eru mennskir líka og partur af leiknum. Maður á bara að halda kjafti og taka dómnum.“

Terrel Vinson var frábær í leiknum og skoraði 30 stig fyrir gestina en Ragnar segir að hann sé loks farinn að sýna sínar bestu hliðar í Njarðvíkurliðinu.

„Hann er loksins farinn að skína eftir að hafa verið spurningamerki á undirbúningstímabilinu. Í fyrsta deildarleiknum á móti KR sýndi hann að hann er hörku leikmaður sem passar vel inn í hópinn okkar. Hann þekkir sitt hlutverk og er ófeiminn við að fara á körfuna, hann er gríðarleg bæting fyrir liðið.“

Ragnar var einn fjölmargra leikmanna sem hefur spilað fyrir bæði liðin og hann segir að það hafi verið skemmtileg stemning að mæta sínum gömlu félögum.

„Ég þekkti stúkuna vel og ég heyrði að þeir voru eitthvað að kalla á mig, bjánarnir hérna í Þorlákshöfn. Það er gaman, maður má ekki gleyma að hafa gaman af þessu þegar leikmenn eru búnir að flakka á milli suðurstrandarvegarins.“

mbl.is