„Það var ekkert stress“

Haukar Óskarsson var góður í kvöld.
Haukar Óskarsson var góður í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að smella vel,“ sagði sigurreifur Haukur Óskarsson eftir 81:66-sigur Hauka á Íslandsmeisturum KR í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Vesturbænum í kvöld. Haukar eru með átta stig að sjö leikjum loknum.

„Menn vilja gera betur en á síðasta tímabili og það er mjög góð stemning í hópnum,“ sagði Haukur en sigur Hauka var í raun aldrei í hættu. Þeir náðu forystunni í upphafi leiks og létu hana aldrei af hendi.

Haukur var ánægður með hugarfar gestanna í kvöld en þeir urðu ekki smeykir þótt KR-ingar tækju ágæta kafla en þeir minnkuðu muninn í fjögur stig í þriðja leikhluta.

„Mér fannst við vera yfirvegaðir. Það var ekkert stress, allir héldu haus og voru saman í þessu. Við ræddum það í hálfleik að þeir koma oft út sem allt annað lið í seinni hálfleik en við höfum spilað oft við þá og stemningin var okkar megin.“

Haukur lék frábærlega, sérstaklega í upphafi seinni hálfleiks en þá skoraði hann hverja körfuna á fætur annarri. „Ég byrjaði illa en ætlaði að gera betur,“ sagði Haukur og hló þegar hann var spurður að því hvort honum hafi á tímabili liðið eins og karfan væri risastór bali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert