Herði Axel bolað burt frá Kasakstan

Hörður Axel Vilhjálmsson á landsliðsæfingu.
Hörður Axel Vilhjálmsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hörður Axel Vilhjálmsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur fengið sig lausan undan samningi við lið Astana frá Kasakstan og er á heimleið.

Hörður Axel segir í samtali við karfan.is að stjórn félagsins hafi orðið til þess að hann fékk sig lausan og að á ýmsu hafi gengið í Kasakstan síðan hann samdi þar í sumar.

„Stjórn liðsins er í raun valdur þess að þetta er ekki að ganga upp. Þeir taka ákvörðun og fara bak við þjálfara liðsins þegar þeir ráða öðruvísi leikstjórnanda. Þetta var eins og segir þvert á vilja þjálfarans sem vildi ólmur halda mér. Ég get kannski sjálfum mér um kennt eftir að hafa átt þrjá slaka leiki hafi ég í raun gefið þeim séns á þessu,“ sagði Hörður Axel við karfan.is.

Hann segir jafnframt að Keflavík sé fyrsti kostur og ætlaði hann að hefja viðræður þar þegar hann kemur til landsins. Þá segist hann ekki stefna að því að fara aftur út í atvinnumennsku nema eitthvað sérstakt komi upp á.

Hörður Axel er öll­um hnút­um kunn­ug­ur hjá Kefla­vík. Hann gekk til liðs við fé­lagið 2008 og átti þar góðan fer­il þar til hann hélt til Evr­ópu í at­vinnu­mennsku 2011. Erlendis hefur hann leikið í Þýskalandi, Grikklandi, Belgíu, Spáni, Tékklandi, Ítalíu og Kasakstan.

mbl.is