Erum orðnir svo fjandi gamlir

Finnur Freyr Stefánsson.
Finnur Freyr Stefánsson. mbl.is/Golli

KR skaut sér í úrslitaleik Maltbikars karla í körfubolta með 90:71 sigri á Breiðabliki í undanúrslitunum í Laugardalshöllinni í dag. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var ekki sérlega ánægður með frammistöðu sinna manna en þó sáttur með úrslitin.

„Ég held að það sé ágætlega orðað, annað liðið hefur að öllu að vinna en hitt öllu að tapa,“ sagði hann í viðtali við mbl.is eftir leik, aðspurður að því hvort svona leikir væru sýnd veiði en ekki gefin.

„Ég ætla samt að hrósa Blikunum, Jeremy er mjög flottur og svo sérstaklega Snorri og Árni sem stíga báðir vel upp. Snorri var sérstaklega duglegur að rusla mönnum til undir körfunni eins og honum er lagið.“

Finnur segir það ekki erfitt riðla undirbúningnum að mæta í leik þar sem öll pressan er á KR, enda leikmenn liðsins vanir því.

„Við höfum verið í þessari aðstöðu áður og þetta snerist meira um það verkefni að komast í úrslitaleikinn heldur en kannski andstæðinginn sem við vorum að spila á móti. Við vissum það að ef við spiluðum á eðlilegri getu þá ættu Blikarnir ekki séns, því  miður sýndum við það á of fáum köflum. Mér fannst við leyfa Blikunum að vera óþarflega mikið inn í leiknum og frammistaðan sem slík var bara alls ekki nógu góð.“

„Ef við spilum eins á laugardaginn, hvort sem það verður á móti Haukum eða Tindastól, þá munum við einfaldlega ekki eiga séns. Við þurfum að gera töluvert betur.“

Finnur segist ekki eiga sér neinn óska mótherja í úrslitaleiknum á laugardaginn kemur.

„Nei, við leyfum liðunum að kljást hérna á eftir og tökum svo því sem að höndum ber.“

Eftir nokkuð erfiða byrjun hafa Íslands- og bikarmeistararnir verið að finna taktinn aðeins aftur, eru nú komnir í fjórða bikarúrslitaleikinn í röð og hafa unnið síðustu sex leiki sína. Finnur segir leikmenn sína enn þá vera að finna taktinn.

„Það eru svona kostir og gallar. Það er auðvitað vont að menn séu í meiðslum en kosturinn er sá að aðrir fá stærra hlutverk á meðan en vesenið er að reyna finna þessa einingu og þennan takt í liðinu. Það er ekki alveg komið enn þá og mun taka smá tíma en það er gott að sjá menn á gólfinu, við erum bara með einn leikmenn úti og svo er Zaccery að spila fyrir Jón Arnór. Við reynum að finna leið til að láta liðið fúnkera áður en við finnum þessa línu sem við viljum spila eftir.“

Er þá vont að spila úrslitaleikinn strax núna á laugardaginn?

„Nei, nei það er fínt. Þetta er auðvitað mikil törn núna, þetta er þriðji leikurinn síðan á fimmtudaginn og svo bætist sá fjórði við á laugardaginn. Þetta er svona lúxus vandamál en á sama tíma þá eru Haukarnir og Tindastóll í sömu aðstöðu og þetta er engin afsökun. Kannski eina málið er að við erum orðnir svo fjandi gamlir,“ sagði Finnur að lokum og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert