Keflavík í úrslit eftir framlengda spennu

Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur eru komnir í úrslit Malt-bikars kvenna í körfubolta eftir sigur í framlengdum spennuleik gegn Snæfelli, 83:81, í Laugardalshöllinni í kvöld.

Keflvíkingar burstuðu Snæfellinga í deildarleik liðanna á laugardaginn var en slík úrslit voru aldrei í spilunum í kvöld. Með Kristen Denise McCarthy í fremstu víglínu voru Snæfellingar yfir í hálfleik, 40:41, en hún skoraði 22 stig og átti átta fráköst í fyrri hálfleiknum.

Brittanny Dinkins var sem fyrr fremst meðal jafningja hjá Keflavík sem tók frumkvæðið í leiknum og var yfir framan af áður en fyrrnefnd McCarthy skoraði glæsilega flautukörfu á lokasekúndu fyrri hálfleiks til að senda sitt lið inn í hálfleiksræðuna með forystu.

Dinkins og Embla Kristínardóttir voru með frekari leikmönnum í vörn og þeim tókst að loka vel á McCarthy og félaga í Snæfelli í þriðja leikhlutanum. Bikarmeistararnir voru með nauma forystu fyrir lokaleikhlutann en aftur bitu Snæfellingar frá sér og liðin hreinlega skiptust á að vera yfir allt fram á síðustu andartökin. McCarthy fékk svo tækifæri til að klára leikinn í venjulegum leiktíma með síðasta skotinu en ofan í fór það ekki og grípa þurfti til framlengingar.

Sem fyrr var fátt sem skildi að liðin í framlengingunni en Keflavík hafði betur að lokum í þvílíkum spennuleik. Dinkins skoraði 35 stig og síðustu þrjú stigin í framlengingu sem skildu liðin að.

Það verður því Suðurnesjaslagur í úrslitunum á laugardaginn kemur er Keflavík mætir Njarðvík.

Keflavík 83:81 Snæfell opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert