Veit ekki hvað við vorum að gera

Nino D'Angleo Johnson Þórsara mistekst að troða boltanum í körfuna ...
Nino D'Angleo Johnson Þórsara mistekst að troða boltanum í körfuna þegar stutt var eftir af leiknum og Þórsarar í býsna góðri stöðu að ná að jafna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var fenginn í spjall eftir að Tindastóll hafði unnið Þór 77:72 í Dominos-deild karla á Akureyri í kvöld. Lið hans átti ekki góðan fyrri hálfleik en eins og stundum í vetur þá voru Þórsarar ekki langt frá því að komast fram úr á lokakaflanum. 

Hvað viltu segja um frammistöðu þinna manna í kvöld? 

„Við vorum rosalega slakir allan leikinn og Tindastólsmenn voru líka frekar slappir. Það vantaði heilmikið í liðið þeirra í kvöld og ég var mjög bjartsýnn fyrir þennan leik. Ég hélt að við myndum taka þetta. Svo bara var fyrri hálfleikurinn okkar skelfilegur. Vörnin var ekki góð en sóknirnar voru hreint skelfilegar. Við gátum varla sett upp kerfi og spilað saman. Ég veit ekki hvað við vorum að gera.

Við vissum alveg að þetta gæti orðið erfitt fyrir Stólana en við hugsuðum lítið um það, ætluðum bara að mæta grimmir og spila okkar leik, sem við gerðum svo ekki. Við hittum því miður ekkert fyrir utan og nýtingin var 15%. Maður á erfitt með að vinna leiki með svoleiðis nýtingu. Stólarnir voru svo sem ekki mikið hittnari en þeir settu niður nokkur stór skot.

Þið hafið tekið þetta prógram í nokkrum heimaleikjum í vetur, lent í að elta allan leikinn og verið hársbreidd frá því að taka sigur í lokin.

„Já það er rétt. Það var bara ekki kveikt á okkur í fyrri hálfleik í kvöld, bæði varnarlega og sóknarlega. Við breyttum svo yfir í svæðisvörn og það virkaði ágætlega og þá kom stemning í liðið og við hefðum alveg getað stolið þessu.“ 

Hversu svekkjandi var að sjá þegar Nino ætlaði að troða með látum en boltinn fór ekki í körfuna. Hann hefði þá minnkað muninn í eitt stig en í staðinn skoruðu Stólarnir.

„Það hefði verið flott að fá þessa körfu og þá hefðum við verið í bullandi séns.“

Það er engan bilbug á ykkur að finna þrátt fyrir slæma stöðu. Þið eruð með mannskap í að vinna leiki.

„Já, við unnum Keflavík í síðasta útileik og það sýnir að það býr mikið í liðinu. Við þurfum bara að vera tilbúnir í hvern einasta leik,“ sagði þjálfarinn geðþekki að lokum.

mbl.is