Sérstakt að mæta Yao Ming í Kína

Logi Gunnarsson í leiknum gegn Tyrkjum sem fór í framlengingu …
Logi Gunnarsson í leiknum gegn Tyrkjum sem fór í framlengingu á EM í Berlín 2015. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Logi Gunnarsson mun leika sinn síðasta A-landsleik gegn Tékkum í undankeppni HM í körfuknattleik á sunnudaginn en hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir tæpum átján árum í sigri á Norðmönnum í Keflavík. 

Logi Gunnarsson í leik gegn Belgum í fyrra. Hann hefur …
Logi Gunnarsson í leik gegn Belgum í fyrra. Hann hefur með mikilli eljusemi haldið sér í afar góðu líkamlegu formi á fertugsaldrinum. mbl.is/Golli

 Mbl.is spurði Loga hvaða landsleikir væru eftirminnilegastir. „Margir leikir gegn stórum þjóðum eru eftirminnilegir. Við fengum til dæmis tækifæri til að spila nokkra leiki við Litháa sem eru ein fremsta körfuboltaþjóð í heimi. Við fórum til Kína og spiluðum á móti Kínverjum með Yao Ming innanborðs sem þá var á fullu með Houston Rockets. Það var mjög sérstakt.

Auk þess standa Eurobasket-mótin upp úr og þá frekar Berlín 2015. Þá vorum við á stóra sviðinu í fyrsta skipti og mættum Þjóðverjum í upphafsleik með Dirk Nowitzki. Það var ábyggilega einn af toppunum hjá henni. Á því móti fórum við í framlengingu á móti Tyrkjum sem er stórþjóð og hafði spilað til úrslita á HM. Persónulega átti ég þá góðan leik,“ sagði Logi Gunnarsson við mbl.is. 

Logi Gunnarsson í landsliðstreyjunni árið 2001.
Logi Gunnarsson í landsliðstreyjunni árið 2001. mbl.is/Brynjar Gauti

 Logi er á 37. aldursári og honum fannst vel við hæfi að ljúka landsliðsferlinum á heimavelli. „Eftir EM í Helsinki fór ég að skoða dagsetningarnar varðandi næstu landsleiki. Það er svolítið sérstakt að fá tvo leiki í röð í Laugardalshöllinni. Það hefur sjaldan gerst í þessum undankeppnum. Mér fannst það passa betur en að hætta strax eftir EM og hef velt ákvörðuninni fyrir mér í nokkurn tíma. Mig langaði til að fá góða leiki hér heima.“ 

Ísland og Finnland mætast í Laugardalshöllinni í kvöld klukkan 19.45 en leikur Íslands og Tékklands verður á sama stað klukkan 16.00 á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert