„Þarf að sjá það til þess að dæma um það“

Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Sigurður Gunnar Þorsteinsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var hreint frábær í kvöld þegar Grindavík fór norður á Sauðárkrók til að etja kappi við Tindastól. Var það fyrsta viðureign liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfubolta. Leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda og þurfti Sigurður að kyngja tapi eftir framlengdan leik. Hann var spurður út í leikinn og framhald einvígisins.

„Þetta var virkilega svekkjandi. Sérstaklega í ljósi þess að við vorum með leikinn. Það er erfitt að koma á Krókinn og vinna en við vorum bara svo grátlega nálægt því.“

Það er kannski sérstaklega sárt að tapa eftir að hafa átt svona góðan leik. Þú varst að spila mjög vel og varst öflugur á báðum endum vallarins.

„Já þakka þér fyrir. Mér fannst ég vera að standa mig vel en það bara telur ekki ef þú tapar. Það vantaði herslumuninn. Það þýðir ekkert að vera að svekkja sig á þessu. Næsti leikur er á þriðjudaginn og við bara mætum þá klárir. Við ætlum bara að vinna næsta leik.“

Viltu segja eitthvað um jöfnunarkörfuna sem Sigtryggur Arnar skoraði í lok leiksins. Þú lást óvígur í gólfinu eftir þá körfu.

„Ég sá ekkert hvað gerðist. Mér skilst að hann hafi ýtt Ingva Þór hressilega mikið og viðurkennt það sjálfur. Hann var hissa á að það hafi ekki verið dæmd villa. Það segir allt sem segja þarf. Þar er leikurinn líka. Þeir komast í framlenginguna með þessu. Ég var að fara að hirða boltann og svo allt í einu kemur Ingvi fljúgandi í andlitið á mér. Mér skilst að Sigtryggur hafi hrint Ingva. Ég sá það ekki sjálfur. Ég þarf að sjá það til þess að dæma um það.“

Nú var þetta baráttuleikur. Var ekki verið að flauta óvenju lítið miðað við kannski í deildarkeppninni?

„Það er alltaf meira leyft í úrslitakeppninni. Það er meiri harka og meira undir. Það vill enginn fara í sumarfrí. Ég er bara ánægður með það. Auðvitað fannst mér sumir dómar skrýtnir á báða bóga og það hefur eflaust núllast út. Maður veit ekki. Mér fannst þessi síðasti ekki-dómur í leiknum slæmur, bara mjög slæmur. Þegar Sigtryggur skorar jöfnunarkörfuna.“

Miðað við þennan leik má ekki búast við fimm leikja seríu.

„Ég vil bara fara í fjóra leiki, svona persónulega. Ég vil samt ekki lofa neinu. Ég vil bara vinna næsta leik. Það er gamla klisjan. Þessi lið eru flott og leikirnir bjóða upp á spennu. Þau spila mjög ólíkan körfubolta. Þeir vilja spila hratt en við fimm á fimm. Kannski verður fimmti leikurinn spilaður hér og það er bara fínt. Við fílum okkur vel hérna“ sagði hinn magnaði Siggi Þorsteins að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert