„Þeir eru eins og hákarlar“

Ryan Taylor í leiknum í kvöld.
Ryan Taylor í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ryan Taylor snéri aftur í kvöld eftir þriggja leikja bann og lék með ÍR sem mátti sætta sig við tap fyrir Tindastóli 69:84 í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í Breiðholtinu í kvöld. 

„Mér skilst að við höfum tapað boltanum nítján sinnum í kvöld og ég held einnig að þeir hljóti að hafa haft betur í baráttunni um fráköstin. Þeir voru grimmir og höfðu betur í baráttunni þótt við höfum komið inn í leikinn með vissan meðbyr eftir sigur í síðasta leik. Persónulega fann ég aðeins fyrir því að nokkur tími er liðinn frá mínum síðasta leik (22. mars),“ sagði Taylor sem haltraði út af seint í þriðja leikhlutanum en var ekki lengi utan vallar. Sagðist hann hafa meiðst á ökkla þegar hann lenti illa en sagði að ekki vera neitt alvarlegt. Sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því. 

Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram og Tindastóll er nú 2:1 yfir í rimmunni en næsti leikur er á Sauðárkróki. Ef til oddaleiks kemur á ÍR heimaleikjaréttinn. Taylor segir það geta hjálpað ÍR-ingum í næsta leik að þeim hefur ekki gengið illa á Króknum í vetur. 

„Ég held alltaf ágæta tilfinningu fyrir leikjum hvort sem þeir eru á heimavelli eða útivelli. Við unnum fyrir norðan í deildinni og samherjar mínir gerðu það aftur án mín um daginn. Við vitum því að við getum unnið fyrir norðan. Þar sem við stóðum okkur vel í deildakeppninni þá eigum við oddaleikinn á heimavelli ef til þess kemur. En við þurfum að berjast því þetta verður orrusta. Þeir munu ekki gefa eftir. Þeir eru eins og hákarlar og finna blóðlyktina. Þeir verða ákafir en við munum leggja okkur alla fram,“ sagði Taylor í samtali við mbl.is að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert