KR búið að semja við Bandaríkjamann

Julian Boyd verður leikmaður KR í vetur.
Julian Boyd verður leikmaður KR í vetur. Twitter/@J_BOYD42

Körfuknattleiksdeild KR hefur samið við hinn bandaríska Julian Boyd um að leika með liðinu í Dominos-deild karla í vetur. Íþróttafréttamaðurinn Nicola Lupo fullyrðir þetta á Twitter.

Boyd hefur leikið undanfarin ár í Kanada en áður var hann í háskólaboltanum með liði Long Island, sama lið og Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson léku með eftir að Boyd útskrifaðist.

Í Kanada lék Boyd með liði London Lightning og var að meðaltali með 12,5 stig og 6,3 fráköst í leik. Hann hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli á ferlinum og slitið krossband í heil fjögur skipti en hann er 28 ára gamall.

Boyd er enn ein viðbótin við hóp KR sem hefur tekið þó nokkrum breytingum frá því að liðið varð Íslandsmeistari í fimmta sinn í röð síðastliðið vor. Dino Stipcic og Emil Barja höfðu áður gengið til liðs við KR en þeir Darri Hilmarsson, Brynjar Þór Björnsson og kristófer Acox hafa allir róað á önnur mið. Þá hefur Ingi Þór Steinþórsson tekið við þjálfun liðsins eftir að Finnur Freyr Stefánsson sagði starfi sínu lausu.

mbl.is