Ég var mjög klökkur

Jón Arnór Stefánsson í síðasta leik landsliðsferilsins.
Jón Arnór Stefánsson í síðasta leik landsliðsferilsins. mbl.is/Hari

Jón Arnór Stefánsson lék sinn 100. og síðasta landsleik í kvöld er Ísland vann sannfærandi 91:67-sigur á Portúgal í Laugardalshöll í forkeppni Evrópumótsins í körfubolta. Hann og landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson kveðja landsliðið eftir leikinn. 

„Fyrir mig persónulega var gott að komast á töfluna og það sama á við um Hlyn. Svo var ofboðslega gott að vinna leikinn og komast í gegnum þetta meiðslalaus. Það var æðislegt að vera með fjölskylduna og vinina í stúkunni,“ sagði Jón Arnór í samtali við mbl.is. 

Það var töluvert meiri orka í íslenska liðinu en því portúgalska og segir Jón það einkenni íslenska liðsins. Hann bætti svo við að Ísland hafi fengið aukakraft, þar sem um kveðjustund hjá honum og Hlyni væri að ræða. 

„Það er okkar einkenni og það verður að vera þannig áfram, annars vinnum við ekki marga leiki. Við verðum að vera á þessu gasi til að vinna leiki. Við höfum reynt að búa til þennan kúltúr í liðinu; að vera á milljón allan tímann. Við erum ekki hæfileikaríkasta lið Evrópu og við verðum að gera þessa hluti vel.

Ég bjóst ekki við svona stórum sigri en þeir áttu eiginlega enga möguleika á móti okkur. Það er sama hverjir hefðu mætt til leiks í dag, þeir hefðu átt í erfiðleikum með okkur. Við vorum mjög einbeittir og það gaf okkur auka kraft að við Hlynur værum að hætta.“

Æðislegt að horfa upp í stúku

Jón segist bíða spenntur eftir næsta heimaleik og að hann muni fylgjast með sem áhorfandi. 

„Mér finnst svo gaman að sjá góðan körfubolta, líka sem áhorfandi svo ég hlakka til. Það verður öðruvísi. Kannski verð ég eitthvað í kringum það, eða bara í stúkunni. Það er sama hvar ég verð, ég verð með stuðninginn á fullu gasi.“

Hann viðurkennir að hann hafi átt erfitt með að halda aftur af tárunum er hann fékk heiðursskiptingu, tveimur mínútum fyrir leikslok. 

„Það náði mér næstum því. Ég var mjög klökkur og ánægður í hjartanu. Það var æðislegt að horfa upp í stúku og sjá mömmu og pabba, systkini sín og börn. Ég er rosalega þakklátur,“ sagði Jón Arnór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert