Ekki gáfulegt að grafa sér holu

Ragnar Örn Bragason í baráttunni við Jón Arnór Stefánsson í …
Ragnar Örn Bragason í baráttunni við Jón Arnór Stefánsson í þriðja leik liðanna í Vesturbænum. mbl.is/Eggert

„Þetta er fyrst og fremst gríðarlega svekkjandi og við áttum ekki að tapa 3:1 á móti þeim,“ sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn, í samtali við mbl.is eftir 108:93-tap liðsins gegn KR í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld.

Ragnar átti fínan leik fyrir Þórsara og skoraði 15 stig en það dugði ekki til í kvöld gegn sterku liði KR.

„Við spiluðum ekki nægilega góða vörn í einvíginu til þess að eiga skilið að fara áfram. Það er ekki gáfulegt að grafa sig í holu á móti KR og við gerðum það með þessari byrjun okkar í kvöld. Við reyndum og reyndum að koma til baka en þá settu þeir þrista í andlitið á okkur eða tóku fráköst á móti okkur og því fór sem fór.“

Þórsurum tókst að minnka forskot KR-inga í fimm stig í tvígang en lengra komust þeir ekki og Ragnar viðurkennir að það hafi tekið á.

„Okkur tókst að koma okkur inn í leikinn nokkrum sinnum en það dugði bara ekki til. Við náum að minnka muninn í fimm stig í tvígang og þá fannst mér meðbyrinn vera með okkur en þá fengum við þrist eða sóknarfrákast í andlitið. Þetta gerðist nokkrum sinnum í leiknum og það er erfitt að taka því þegar maður er svo nálægt því að jafna metin.“

Kinu Rochford náði sér ekki á strik í kvöld en Ragnar viðurkennir að Vesturbæingar hafi gert mjög vel í að loka á framherjann.

„KR spilaði frábæra vörn á Kinu og þeir lokuðu vel á hann. Hann var kannski ekki að skora jafn mikið í síðustu leikjum en hann var duglegur að finna okkur samt sem áður. Þetta lið stendur ekki og fellur með því hvort hann skori 20 stig eða meira, því þegar þeir tvídekka hann opnast fyrir okkur hina, og hann finnur okkur alltaf,“ sagði Ragnar Örn Bragason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert