Breiðabliki boðið sætið í efstu deild

Breiðablik fær viku til að svara hvort það vilji sætið …
Breiðablik fær viku til að svara hvort það vilji sætið í efstu deild. mbl.is/Hari

Breiðabliki, sem féll úr Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í vor, hefur verið boðið að halda sæti sínu í deildinni í kjölfar þess að Stjarnan ákvað að draga lið sitt út og tefla þess í stað fram liði í 1. deild næsta vetur.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir við mbl.is að venjan sé sú að liðinu sem féll sé fyrst boðið sætið í þessum aðstæðum. Það er Breiðablik í þessu tilfelli, en félagið hefur viku til þess að ákveða hvort það þiggi sætið. Fjölnir, sem tapaði í umspili 1. deildar um sæti í efstu deild, er næst í röðinni.

„Mér finnst þetta afar leiðinlegt og í rauninni sorglegt. Það er leitt að félag þurfi að draga sig út úr efstu deild á þessum forsendum. Við höfum byggt upp mjög sterkar deildir á síðustu árum og það er mikill uppgangur í yngri flokkum hjá stelpunum. Þetta er svekkjandi, en um leið skil ég Stjörnuna. Þetta hefur samt ekki meiri áhrif því það er ennþá bullandi uppgangur í kvennakörfunni,“ segir Hannes við mbl.is.

mbl.is