Enginn afsláttur á Hlíðarenda

Pavel Ermolinskij skrifaði undir tveggja ára samning við Valsmenn í …
Pavel Ermolinskij skrifaði undir tveggja ára samning við Valsmenn í dag. mbl.is/Bjarni

„Það eru margar ástæður fyrir því að ég ákvað að semja við Val,“ sagði körfuknattleikskappinn Pavel Ermolinskij í samtali við mbl.is í Fjósinu á Hlíðarenda í dag. Pavel skrifaði undir tveggja ára samning við Valsmenn en hann kemur til félagsins frá KR þar sem hann hefur orðið Íslandsmeistari, undanfarin sex ár.

„Þetta er góð áskorun fyrir mig persónulega, að fara í lið sem þarf virkilega á mér að halda. Þetta er lið sem vill gera betur en undanfarin ár og er enn í mótun, ólíkt KR sem dæmi, þar sem liðið er mjög heilsteypt. Það er allt til alls hérna á Hlíðarenda og félagið er fullfært um að taka næsta skref, það er mikill hugur í Valsmönnum, og allt verkefnið hjá Valsmönnum í heild sinni er mjög spennandi og ég er spenntur að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu.“

Pavel hefur spilað með KR frá árinu 2013 þar sem hann hefur orðið Íslandsmeistari sex ár í röð. Hann hefur verið algjör lykilmaður í Vesturbænum og viðurkennir að hann hafi verið fastur í ákveðnum þægindaramma.

„Það er stór hluti af þessu, þetta var orðið þægilegt í KR og einfalt fyrir mig. Mitt hlutverk hefur ekki breyst mikið í Vesturbænum og það er í raun ein af ástæðum þess að ég ákvað að prófa eitthvað nýtt. Mig langar að setja meiri pressu á sjálfan mig og gera betur og standa mig. Þetta snerist ekki um peninga og ég er mjög sáttur með samninginn sem ég fékk á Hlíðarenda. Viðræður við KR fóru aldrei það langt að þetta var enginn samanburður þannig séð, ég tók bara ákvörðun á ákveðnum tímapunkti að fara.“

Pavel Ermolinskij varð Íslandsmeistari með KR í sjöunda sinn síðasta …
Pavel Ermolinskij varð Íslandsmeistari með KR í sjöunda sinn síðasta vor. mbl.is/Árni Sæberg

Umræða sem böggaði mig

Pavel var sterklega orðaður við brottför frá KR, síðasta sumar, eftir að margir lykilmenn liðsins hurfu á braut. Hann hélt hins vegar tryggð við liðið og skrifaði að lokum undir nýjan samning við Vesturbæjarstórveldið.

„Þetta voru bara hlutir sem maður heyrði af utan úr bæ og þessi umræða átti alveg rétt á sér. Þetta böggaði mig ekkert sérstaklega en svo kom einhver púki upp í mér og þá fór þetta að bögga mig að heyra af því að maður nennti þessu ekki lengur og hvort maður hefði enn þá metnað fyrir körfuboltanum. Þetta var allt umræða sem átti fyllilega rétt á sér en þá vildi ég fyrst og fremst sanna það fyrir mér, frekar en öðrum, að ég gæti enn þá spilað körfubolta og leitt mitt lið, án þess að fela mig í vélinni sem KR er og var.“

Valsmenn hafa ekki riðið feitum hesti frá karlakörfunni á undanförnum árum en liðið hafnaði í níunda sæti deildarkeppninnar á síðustu leiktíð. Pavel er ekki mættur á Hliðarenda til þess að tryggja sæti í úrslitakeppninni heldur til þess að berjast um titla.

„Það þarf ákveðin hugarfarsbreyting að eiga sér stað á Hlíðarenda og við sáum það gerast hjá kvennaliðinu þeirra í fyrra. Þetta þarf að gerast líka og ég sagði við þá að um leið og ég labba hérna inn þurfa allir að vera með og það verður enginn afsláttur gefinn. Við erum ekki að reyna að taka eitt skref áfram eða koma okkur inn í úrslitakeppnina. Við erum að stefna á sigur númer eitt tvö og þrjú og allt annað eru vonbrigði, það þarf svo bara að koma betur í ljós hvort það gengur upp eða ekki,“ sagði Pavel í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert