„Börn hlógu að kynþáttaníðinu“

Kinu Rochford varð fyrir kynþáttafordómum á Hornarfirði á föstudaginn.
Kinu Rochford varð fyrir kynþáttafordómum á Hornarfirði á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég upplifi kynþáttaníð í minn garð á sjö ára atvinnumannaferli,“ sagði Kinu Rochford, bandarískur leikmaður 1. deildarliðs Hamars í körfuknattleik, í samtali við mbl.is í dag. Hamar heimsótti Sindra á Hornafjörð í fyrstu umferð deildarinnar á föstudaginn síðasta en stuðningsmaður Sindra hrópaði ítrekað ókvæðisorð að Rochford í leiknum sem snéru að litarhætti leikmannsins.

„Áreitið frá þessum ákveðna stuðningsmanni byrjaði í þriðja leikhluta en í fyrstu var þetta mjög saklaust. Hann var eitthvað að gera grín að sokkunum mínum og ég svaraði honum bara og þakkaði honum fyrir. Í fjórða leikhluta fór hann hins vegar að vera með alvöru fordóma. Hann öskraði „You black shit,“ þegar ég steig á vítalínuna til þess að taka mig úr jafnvægi. Ég ákvað að hunsa hann en hann hélt áfram að kalla mig svartan skít í hvert skipti sem ég gerði eitthvað á vellinum. Hann hélt svo áfram að niðurlægja mig og öskraði yfir allan salinn að ástæðan fyrir því að Þór hefði losað sig við mig væru sú að ég væri vonlaus körfuboltamaður. Þegar fjórar  mínútur voru liðnar af leikhlutanum fór hann svo að kalla mig niggara og negra. Þetta gerðist ekki einu sinni eða tvisvar, hann hrópaði þetta í átt að mér stöðugt. „Hey negri, þú ert ömurlegur,“ sagði hann stöðugt þegar að ég var að taka vítaskot, yfir allan salinn.“

Kinu Rochford lék með Cheshire Phoenix á árunum 2015 til …
Kinu Rochford lék með Cheshire Phoenix á árunum 2015 til ársins 2016. Ljósmynd/Facebook

Hélt ró sinni allan tímann

Rochford viðurkennir að hann hafi fundið fyrir reiði en eftir að hann hefur haft tíma til þess að melta atvikið segist hann vera fyrst og fremst sár yfir hegðun stuðningsmanna Sindra.

„Liðsfélagar mínir sögðu mér að halda ró minni og mér tókst það með hjáp frá Allah sem gaf mér styrk. Að kalla einhvern negra eða niggara er hrein og bein óvirðing og ég get staðfest það hér og nú að ég hef aldrei áður upplifað svona áður. Ég spilaði á mörgum stöðum á mínum ferli og aldrei lent í svona aðstæðum. Það versta við þetta er að ég gerði ekkert til þess að verðskulda þetta, annað en að taka vítaskot. Í fyrstu fann ég fyrir reiði en eftir á þá var ég fyrst og fremst sár. Viðbrögðin í íþróttahúsinu komu mér líka á óvart ef ég á að vera hreinskilinn. Það sagði enginn neitt og fólkið í kringum þennan aðila sem var með fordóma og dónaskap í minn garð hló bara. Það versta við þetta var að það voru börn í kringum hann sem hlógu að kynþáttafordómunum. Þetta hætti heldur ekki þegar leikurinn var búinn því þetta fólk kom inn á völlinn í leikslok og hélt áfram að niðurlægja mig. Mér leið illa og þetta er ekki tilfinning sem þú vilt upplifa eftir sigurleik.“

Kinu Rochford í leik með Þórsurum gegn Njarðvík í úrvalsdeildinni …
Kinu Rochford í leik með Þórsurum gegn Njarðvík í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Alltaf liðið vel á Íslandi

Framherjinn þekkir vel til á Íslandi en hann sló í gegn með Þór frá Þorlákshöfn í úrvalsdeildinni síðasta vetur og  var einn besti leikmaður liðsins þegar Þórsarar fóru alla leið í undanúrslit Íslandsmótsins.

„Ég kom til Íslands fyrir ári síðan til þess að spila með Þór Þorlákshöfn. Mér hefur liðið mjög vel á Íslandi frá því ég kom hérna og ég elska landið í allri hrenskilni. Hér býr fólk sem er með misjafnt þjóðerni og því hefur tekist að aðlagast á Íslandi. Þetta er land ákveðna tækifæra og hér getur fólk verið það sjálft og þarf ekki að þykjast. Það sem særði mig mest var að þetta var ekki eitt skipti, þetta hélt áfram út allan leikinn. Ég veit að ég hef stundum verið gagnrýndur en það á enginn að verða fyrir fordómum vegna litarhátt síns eða uppruna.“

Julian Boyd og Kinu Rochford í baráttunni í undanúrslitum Íslandsmótsins …
Julian Boyd og Kinu Rochford í baráttunni í undanúrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhræddur við að tjá sig

Rochford segist hafa komið til Íslands til þess að spila körfubolta en að atvik föstudagsins krefist þess að um það sé rætt.

„Kynþáttafordómar eru rótgróið vandamál í heiminum í dag og ég er ekki hræddur við að tjá mig um þessi málefni. Ég kom til Íslands til þess að spila körfubolta, ekki til þess að koma mér á forsíður blaðanna fyrir eitthvað allt annað tengt körfubolta. Þegar þú verður hins vegar fyrir kynþáttafordómum og lítil börn hlæja að því, þá verður að segja eitthvað. Mér hefur liðið illa frá því að þetta atvik átti sér stað og það er ein af ástæðum þess að ég var tilbúinn að ræða þetta við blaðamann,“ sagði Rochford í samtali við mbl.is.

Körfuknattleiksdeild Sindra sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins og má nálgast hana með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert