„Skrítin tilfinning“

Falur Jóhann Harðarson.
Falur Jóhann Harðarson. mbl.is/Hari

Falur Harðarson, þjálfari nýliða Fjölnis í Dominos-deild karla í körfuknattleik, er á leið með sína menn í úrslitahelgina í Laugardalshöll eftir að hafa skellt uppeldisfélagi sínu Keflavík 106:100 í gærkvöldi. 

Dregið var í hádeginu í dag og Fjölnir mun mæta Grindavík í undanúrslitunum 12. febrúar. Sigur Fjölnis kom mjög á óvart þar sem liðið er í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar auk þess sem Keflavík hefur verið sterkasta lið landsins í vetur ásamt Stjörnunni. 

„Já það er mikilvægt fyrir starfsemina hjá Fjölni að taka þátt í stærstu körfuboltahelgi ársins á Íslandi. Ég vona bara að fólkið í Grafarvoginum fylgi okkur í Höllina og styðji liðið,“ sagði Falur þegar mbl.is ræddi við hann í dag. Hann er afskaplega ánægður með frammistöðuna gegn Keflavík en Fjölnismönnum hefur gengið illa að landa sigri í jöfnum leikjum á Íslandsmótinu í vetur. 

„Við höfum náð að spila vel í fullt af leikjum í vetur gegn liðum eins og Keflavík, Stjörnunni og KR. Alltaf höfum við þó átt einhverja nýliðakafla í leikjunum þar sem botninn dettur úr okkar leik og mótherjarnir ná að setja 10-15 stig á töfluna á skömmum tíma. Í gær vorum við í bílstjórasætinu allan leikinn. Keflavík náði að jafna en þá náðum við að setja í fimmta gír í fjórða leikhluta og bættum í. Var það eiginlega munurinn á þessum leik og öðrum í vetur að við stóðumst álagið. Það var lífsnauðsynlegt fyrir okkar hóp að ná þessu sigri.“

Spurður um hvort hann hafi nokkuð fengið kaldar kveðjur frá Keflvíkingum, þar sem Falur býr, sagði Falur svo ekki vera en reynir ekki að gera lítið úr því að ávallt sé sérstakt fyrir sig að mæta Keflavík. 

„Nei nei en ég á fullt af félögum í Keflavík sem hafa haft samband við mig. Ég ætla ekki að fara í grafgötur með það að þetta var skrítinn tilfinning. Það er alltaf skrítið að keppa á móti sínu uppeldisfélagi. En ég þjálfa Fjölni núna og er mikill keppnismaður. Ég vil vinna og svona er þetta núna þótt tilfinningar mínar gagnvart Keflavík séu ekki slæmar,“ sagði Falur Harðarson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert