Hver var Kobe Bryant?

Kobe Bryant og dóttir hans, Gigi, létust bæði í þyrluslysinu.
Kobe Bryant og dóttir hans, Gigi, létust bæði í þyrluslysinu. Ljósmynd/Instagram.com/kobebryant

Kobe Bryant, einn besti körfuknattleiksmaður allra tíma, lést aðeins 41 árs í hræðilegu þyrluslysi í Kaliforníu í gær. Gigi, 13 ára dóttir hans, lést einnig í slysinu. En hver var Kobe Bryant? Hvað gerði hann að einum dáðasta íþróttamanni veraldar?  

Kobe Bean Bryant fæddist 23. ágúst 1978 í Philadelphiu í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum. Foreldrar hans, Joe og Pamela Bryant, skírðu Kobe í höfðuðið á frægu nautakjöti frá Kobe í Japan, en þau fengu hugmyndina er þau ferðuðust um Asíuríkið. 

Faðir hans lék í NBA á fyrstu æviárum Kobes, en fjölskyldan fluttist til Ítalíu þegar Kobe var sex ára. Faðir hans fékk samningstilboð þar í landi. Kobe naut sín á Ítalíu, lærði tungumálið og átti að eigin sögn sín bestu æskuár á Ítalíu. 

Alla tíð stuðningsmaður Lakers

Bryant spilaði fyrst körfubolta þegar hann var þriggja ára og var hann alla tíð stuðningsmaður Los Angeles Lakers. Ungur að aldri lék hann körfubolta með ítölskum félögum á veturna og í Bandaríkjunum á sumrin. 

Bryant sló fyrst í gegn í Lower Merion-framhaldsskólanum.
Bryant sló fyrst í gegn í Lower Merion-framhaldsskólanum.

Kobe varð snemma heltekinn af íþróttum og lék einnig fótbolta, þar sem uppáhaldsliðið hans var AC Mílanó. Þá var hann mikill stuðningsmaður Philadelphia Eagles í ruðningi. Faðir hans hætti í körfubolta árið 1991 og flutti fjölskyldan þá aftur til Bandaríkjanna. 

Bryant sló fyrst í gegn með Lower Merion-framhaldsskólanum í Philadelphiu. Var hann kominn í byrjunarlið skólans á fyrsta ári. Það gekk hins vegar lítið hjá Bryant og félögum fyrst um sinn og tapaði hann 20 af fyrstu 24 leikjum sínum með skólanum. 

Sleppti háskólanum fyrir nýliðavalið

Á næstu þremur árum, með Kobe Bryant fremstan í flokki, vann liðið hins vegar 77 af 90 leikjum sínum. Kobe sló í gegn og fékk ýmis einstaklingsverðlaun fyrir frammistöðu sína. Kobe hefði getað valið hvaða háskóla sem var til að spila fyrir, en hann ákvað hins vegar að sleppa háskólanum og fara beint í nýliðavalið í NBA. 

Kobe Bryant var fljótt skipt frá Charlotte til Los Angeles.
Kobe Bryant var fljótt skipt frá Charlotte til Los Angeles. AFP

Þar var hann valinn af Charlotte Hornets, en var skipt yfir til Lakers nánast um leið, þar sem félögin höfðu áður gert samkomulag þess efnis. Fyrstu leikir Bryants fyrir Lakers voru í sumardeild NBA árið 1996, en deildin er eins konar undirbúningstímabil fyrir nýliða, leikmenn sem ekki voru valdir í nýliðavalinu og leikmenn í aukahlutverkum í sínum liðum. 

Byrjaði í aukahlutverki

Bryant skoraði 25 stig í sínum fyrsta leik í sumardeildinni og endaði með 24,5 stig að meðaltali í fjórum leikjum. Skoraði hann m.a. 36 stig í síðasta leik liðsins í deildinni. 

Á fyrsta tímabili Bryant í NBA byrjaði hann fyrst og fremst á bekknum til að leysa Eddie Jones og Nick Van Exel af hólmi. Bryant lék sinn fyrsta leik í deildinni 18 ára og 72 daga gamall og var á þeim tíma yngsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar. Bryant var 18 ára og 158 daga gamall þegar hann var í fyrsta skipti í byrjunarliði og var hann yngsti byrjunarliðsmaður í sögu deildarinnar á þeim tíma. 

Kobe Bryant stal senunni í toðslukeppninni á sínu fyrsta ári.
Kobe Bryant stal senunni í toðslukeppninni á sínu fyrsta ári. Ljósmynd/NBA

Eftir því sem leið á tímabilið fékk Bryant stærra hlutverk í liðinu og undir lok leiktíðar var hann farinn að spila um 15 mínútur í leik. Bryant stal senunni í troðslukeppni deildarinnar er hann varð yngsti sigurvegarinn í sögu keppninnar, aðeins 18 ára. 

Ekki alltaf dans á rósum

Lífið hjá nýliðanum Bryant var hins vegar ekki alltaf dans á rósum. Lakers fór í undanúrslit Vesturdeildarinnar á tímabilinu og vegna meiðsla og annarra áfalla var Bryant hent í djúpu laugina í fimmta leik liðsins við Utah Jazz. Bryant fékk tækifæri til að tryggja Lakers sigurinn í venjulegum leiktíma, sem og góð tækifæri í framlengingu, en hann dreif ekki á körfuna í fjórum skotum í röð og Lakers féll úr leik. 

Kobe Bryant gengur af velli eftir sinn síðasta leik á …
Kobe Bryant gengur af velli eftir sinn síðasta leik á ferlinum. AFP

Bryant fór að vekja meiri athygli í NBA-deildinni á öðru tímabili sínu, þar sem hann skoraði 15,4 stig að meðaltali í leik í stað þeirra 7,6 stiga sem hann skoraði á fyrsta tímabilinu. Hann var valinn í úrvalslið Vesturdeildarinnar, þrátt fyrir að byrja fyrst og fremst á bekknum. 

Það var ekki fyrr en á þriðja tímabili sem Bryant var byrjunarliðsmaður hjá Lakers. Hann skrifaði undir nýjan sex ára 70 milljóna dollara samning við félagið. Liðið féll hins vegar úr leik í undanúrslitum. 

Meistaratitlar og heimsfrægð

Það átti eftir að batna þegar Phil Jackson tók við Lakers árið 1999. Jackson hafði gert Chicago Bulls sex sinnum að meisturum og með hann á hliðarlínunni og Bryant og Shaquille O'Neal á gólfinu varð Lakers meistari árin 2000, 2001 og 2002. Bryant var orðin ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar og heimsfrægur. 

Kobe Bryant og Shaquille O'Neil voru óstöðvandi saman.
Kobe Bryant og Shaquille O'Neil voru óstöðvandi saman. Ljósmynd/NBA

Bryant þurfti að bíða þangað til 2009 til að vinna fjórða titilinn og sá fimmti kom strax árið eftir. Bryant lék í 20 ár sem atvinnumaður, allan tímann með Los Angeles Lakers. Var hann í tvo áratugi í allra fremstu röð. 

Eru tvær treyjur með nafninu hans upp í rjáfri í Staples Center, heimavelli Lakers. Annars vegar númer 8, sem hann lék í fyrstu 10 árin, og hins vegar 24, sem hann skipti yfir í og lék í síðustu tíu árin. Hann er eini leikmaðurinn í NBA sem á tvær treyjur með mismunandi númerum uppi í rjáfri.

Kvaddi með miklum látum

Kobe Bryant skoraði mest 81 stig í einum leik í 122:104-sigri á Toronto 22. janúar 2006. Aðeins Wilt Chamberlain hefur skorað fleiri stig í leik í NBA-deildinni, en hann skoraði mest 100 stig í sama leiknum.

Bryant kvaddi NBA-deildina með miklum látum en hann skoraði 60 stig í 101:96-sigri á Utah Jazz í lokaleiknum. Varð hann í leiðinni elsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 60 stig eða meira í leik, en hann var 37 ára og 234 daga gamall. Þrátt fyrir misgott gengi Lakers á síðustu árum Bryants hélt hann tryggð við félagið sem gaf honum tækifærið og hann hafði stutt alla ævi. 

Kobe Bryant er einn besti körfuknattleiksmaður allra tíma.
Kobe Bryant er einn besti körfuknattleiksmaður allra tíma. AFP

Bryant var áberandi utan vallar og var hann meðlimur í rapphljómsveit, lék í þáttum og bíómyndum, gaf út bók og leikstýrði teiknimynd sem vann Óskarsverðlaun sem besta stuttmynd í flokki teiknimynda. 

Þá var hann mikill stuðningsmaður kvenna í íþróttum og hvatti dætur sína til dáða í þeim efnum. Var hann oft með dætrum sínum á leikjum í WNBA, kvennadeild NBA, og þjálfaði unglingalið dætra sinna. 

Hann giftist Vanessu Leine í apríl 2001 og átti með henni fjórar dætur. Ein þeirra, Gigi, lést í slysinu, en hún var aðeins 13 ára, eins og áður hefur komið afram. 

Bryant var ekki aðeins einn besti körfuboltamaður allra tíma heldur einnig einn áhrifamesti íþróttamaður allra tíma, eins og gríðarleg viðbrögð og sorg við andlát hans sýna. Bryant var dáður og dýrkaður og verður um ókomin ár. Hann var einn sá besti frá upphafi.

mbl.is