Erlendu leikmennirnir með Borgarneshjarta

Emilie Hesseldal í baráttunni við Lovísu Sjöfn Henningsdóttur i Laugardalshöll …
Emilie Hesseldal í baráttunni við Lovísu Sjöfn Henningsdóttur i Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var sterkt að ná að vinna þennan leik því þetta var langt frá því að vera auðveldur sigur,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, í samtali við mbl.is eftir 86:79-sigur liðsins gegn Haukum í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik, Geysisbikarnum, í Laugardalshöll í kvöld.

„Við náum forystunni snemma í leiknum en það var erfitt að halda henni líka. Þær voru alltaf að koma til baka og hóta því að taka forystuna í leiknum. Þær voru að setja erfið skot og við vorum því aldrei öruggar með okkar, þótt við höfum leitt allan leikinn. Þær voru alltaf að anda í hálsmálið á okkur og gerðu þetta mjög erfitt fyrir okkur. Við sýndum hins vegar mikla seiglu í leiknum og kláruðum þetta vel fannst mér.“

Erlendir leikmenn Skallagríms stigu upp í kvöld en Keira Robinson skoraði 44 stig í leiknum og Emilie Hesseldal gerði 27 stig.

„Það var bara að duga eða drepast fyrir okkur enda leikurinn þannig og það var þess vegna ekkert í boði að finna fyrir einhverri þreytu. Við erum búin að spila á fáum leikmönnum allt tímabilið í deildinni og erum þess vegna vanar smá álagi ef svo má segja. Ég fann það strax á fyrstu æfingu liðsins að erlendu leikmenn liðsins voru ekki mættir hingað til þess að halda sínum tölfræðiþáttum á lofti. Þær vilja vinna og ég hafa sýnt það að þær eru komnar með alvöru Borgarneshjarta.“

Skallagrímur hefur alrei orðið bikarmeistari áður og ítrekar Sigrún Sjöfn að Borgnesingar verði litla liðið í úrslitum gegn KR á laugardaginn.

„Ég bjóst við fleirum í stúkuna í dag en kannski var veðrið að hægja á einhverjum. Ég vonast til þess að sjá mun fleiri í stúkunni á laugardaginn og núna förum við í það að skoða KR-liðið. Þær munu eflaust reyna koma okkur eitthvað á óvart, eins og þær gerðu gegn Val hér fyrr í dag. Bæði lið byrja á núlli, þær eru stóra liðið, og við ætlum okkur að berjast fyrir þessum titili,“ sagði Sigrún Sjöfn í samtali við mbl.is.

mbl.is