Borgnesingar voru sjötti maðurinn

Skallagrímur er bikarmeistari 2020.
Skallagrímur er bikarmeistari 2020. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms, varð í dag fyrsta konan frá árinu 1998, til að stýra liði til sigurs í bikarkeppninni í körfuknattleik. Mbl.is tók Guðrúnu tali í Laugardalshöllinni og hún sagði stuðning bæjarbúa ómetanlegan en þeir fjölmenntu í Laugardalshöllina. 

„Það er extra sætt að vinna bikar með uppeldisfélaginu. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að vinna titil með Skallagrími og það tókst í dag. Stuðningsmennirnir voru klárlega sjötti maðurinn. Magnað að sjá allt þetta fólk í stúkunni en hingað komu tvær fullar rútar. Í því samhengi verðum við að þakka Borgarverki og Steypustöðinni fyrir stuðninginn. Þau keyptu miðana og buðu okkar fólki á leikinn. Það eru bara forréttindi að vera í svona bæjarfélagi þar sem allir standa við bakið á okkur, hvort sem það er fjölskyldurnar, vinnufélagarnir eða stjórnin. Það eru allir með,“ sagði Guðrún. 

Vörn Skallagríms var firnasterk í dag sem sést best á því að liðið hélt KR undir 50 stigum. „Við fórum vel yfir sóknarleikinn hjá KR og settum upp vörn eins og við vildum spila á hvern einasta leikmann og í hverju einasta leikkerfi. Liðsvörnin skilaði þessari niðurstöðu. Ég er með frábæra varnarmenn eins og Maja sem hélt Sonju í 4 stigum í dag. Sigrún og Emilie héldu Hildi Björgu í 10 stigum. Við vissum að Danielle myndi skora á bilinu 20 til 30 stig og það var eitthvað sem við þurftum að lifa með,“ sagði Guðrún ennfremur í samtali við mbl.is.  

Borgnesingum gekk vel að loka á KR-konur í dag.
Borgnesingum gekk vel að loka á KR-konur í dag. Ljósmynd/KKÍ/Jónas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert