Mikil stemning í Borgarnesi

Embla Kristínardóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Skallagrím um …
Embla Kristínardóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Skallagrím um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleikskonan Embla Kristínardóttir er gengin til liðs við bikarmeistara Skallagríms og mun hún því leika listir sínar í Borgarfirðinum í Dominos-deildinni næsta vetur. Embla, sem spilar stöðu bakvarðar, gengur til liðs við Skallagrím frá Fjölni í Grafarvoginum þar sem hún lék á síðustu leiktíð í fyrstu deildinni en hún hjálpaði liðinu að vinna sér inn sæti í efstu deild. Í samtali við Morgunblaðið um helgina sagði Embla, 24 ára, að breyttar aðstæður hjá sér persónulega leiddu til þessara félagsskipta.

„Ég fékk vinnu í Borgarnesi og vantaði íbúð. Ég ætlaði að vera í Fjölni en þeir gátu ekki komið til móts við það. Þeir hjá Skallagrími voru búnir að hafa samband við mig áður og ég heyrði í þeim aftur. Upp úr því komu þessi félagsskipti.“ Embla er uppalinn Keflvíkingur og þar hefur hún unnið Íslands- og bikarmeistaratitla, síðast árið 2018. Einnig spilaði hún um nokkurra ára bil með Grindavík. Skallagrímur varð bikarmeistari í boltagrein í fyrsta skipti í sögu félagsins þegar liðið vann KR í úrslitaleiknum í febrúar og ríkti gríðarleg stemning í kringum liðið á þeim tíma. Embla líkir stemningunni í Borgarnesi við tímann sinn hjá Grindavík og segist spennt fyrir því að taka þátt í komandi verkefnum með liðinu.

„Þetta er mjög spennandi, stemningunni svipar til þess þegar ég var í Grindavík. Þetta er lítill bær og allir einhvern veginn inni í þessu, ef leikir vinnast þá vita allir af því. Það er ekki bara liðið sem stendur eitt og sér, það eru allir sem styðja, það er mjög spennandi.“

Metnaður í Borgarnesi

Skallagrímur var í 4. sæti á Íslandsmótinu þegar keppni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði. Guðrún Ósk Ámundadóttir mun áfram þjálfa liðið og þá hefur liðinu tekist að framlengja samninga við sterka leikmenn á borð við framherjann Gunnhildi Lind Hansdóttur og bakvörðinn Keiru Robinson en sú bandaríska var einn besti leikmaður mótsins í vetur. Þá segist Embla vita til þess að félagið ætli jafnvel að styrkja sig enn frekar. „Ég veit að þeir eru að reyna að fá fleiri leikmenn og liðið ætlar að gera gott mót á næsta tímabili.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert