Mæta aftur til starfa í Disney World

LeBron James mætir aftur til starfa í lok júlí.
LeBron James mætir aftur til starfa í lok júlí. AFP

Forráðamenn liða í NBA-deildinni í körfuknattleik samþykttu að tímabilið myndi fara aftur af stað í deildinni vestanhafs þann 31. júlí næstkomandi en það er Adrian Wojnarowski, sérfræðingur ESPN um deildina, sem greinir frá þessu. Alls voru það 29 lið sem samþykktu að hefja leik að nýju en forráðamenn Portland Trail Blazers voru á móti því að byrja spila.

Leikar munu hefjast í Disney World í Orlando en ekkert hefur verið spilað í deildinni, undanfarna mánuði, vegna kórónuveirufaraldursins. Öll lið deildarinnar verða prófuð daglega fyrir veirunni og þá þurfa leikmenn að virða fjöldatakmarkanir sem og tveggja metra regluna sem verður ætið við gildi á svæðinu.

Fari svo að leikmaður smitist af veirunni fer hann í einangrun og ef enginn annar leikmaður liðs hans er smitaður mun liðið halda áfram að spila. ESPN greinir frá því að æfingar muni hefjast í Orlando þann 9. júlí næstkomandi og þá muni allir leikir og æfingar fara fram í Disney World. Forráðamenn NBA-deildarinnar vonast til þess að þann 12. október næstkomandi verði tímabilinu lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert