Toppliðið tapaði aftur

Giannis Antetokounmpo og félagar eru í vandræðum.
Giannis Antetokounmpo og félagar eru í vandræðum. AFP

Milwaukee Bucks, topplið Austurdeildarinnar í NBA-körfuboltanum vestanhafs, tapaði sínum öðrum leik í röð er liðið mátti þola 119:116-tap fyrir Brooklyn Nets í Disney World í gær. Hefur liðið tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum. 

Þrátt fyrir slakt gengi í síðustu leikjum er Milwaukee enn í toppsætinu með 54 sigra og 14 töp. Frakkinn Timothé Luwawu-Cabarrot skoraði 26 stig fyrir Brooklyn á meðan stórstjarnan Giannis Antetokounmpo skoraði aðeins 16 stig fyrir Milwaukee og var stigahæstur. 

Slóveninn Luka Docic átti magnaðan leik fyrir Dallas í 114:110-sigri á Sacramanto Kings í framlengdum leik. Skoraði bakvörðurinn 34 stig, tók 20 fráköst og gaf 12 stoðsendingar. Þá vann Phoenix Suns óvæntan 117:115-sigur á Los Angeles Clippers. Devon booker gerði 35 stig fyrir Phoenix. 

Þá styrkti Portland stöðu sína í baráttunni um áttunda sætið í Vesturdeildinni og þátttökurétt í úrslitakeppninni með 110:102-sigri á Houston. Damian Lillard skoraði 21 stig fyrir Portland á meðan 23 stig frá James Harden dugðu skammt. 

Úrslitin úr NBA-körfuboltanum: 

Milwaukee Bucks - Brooklyn Nets 116:119
Sacramento Kings - Dallas Mavericks 110:114
Los Angeles Clippers - Phoenix Suns 115:117
Indiana Pacers - Orlando Magic 120:109
Miami Heat - Boston Celtics 112:106
Portland Trail Blazers - Houston Rockets 110:102

mbl.is