Öruggur sigur í fyrsta úrslitaleiknum

LeBron James með boltann í nótt.
LeBron James með boltann í nótt. AFP

Los Angeles Lakers vann öruggan 126:114-sigur gegn Denver Nuggets í fyrstu viðureign liðanna í úrslitaeinvígi vesturdeildar NBA í körfuknattleik í nótt. Los Angeles varð í efsta sæti deildarinnar en Denver í því þriðja.

Denver vann að vísu fyrsta leikhlutann með tveimur stigum en Los Angeles var með 11 stiga forystu í hálfleik, 70:59. Anthony Davis skoraði 37 stig fyrir Los Angeles og tók tíu fráköst. LeBron James, sem á dögunum var valinn í sextánda skipti í úr­valslið tíma­bils­ins, skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Næsti leikur liðanna fer fram á morgun en í kvöld heldur áfram úrslitaeinvígi austurdeildarinnar. Þar er Miami Heat með 2:0-forystu gegn Boston Celtics.

mbl.is