Lakers með enn öflugra lið?

Dennis Schröder í leiknum gegn Íslandi á EM í Berlín …
Dennis Schröder í leiknum gegn Íslandi á EM í Berlín árið 2015. Til varnar er Haukur Helgi Pálsson og í baksýn er Martin Hermannsson. AFP

Svo virðist sem NBA-meistararnir í Los Angeles Lakers gætu teflt fram enn öflugra liði á keppnistímabilinu sem senn fer í hönd. 

Liðið hefur náð í fjóra leikmenn sem ýmist voru með útrunninn samning eða í gegnum leikmannaskipti. Allt leikmenn sem hafa sannað sig í deildinni. 

Montrezl Harrell færir sig um set í borg englanna og fer frá Clippers yfir til Lakers en Harrell var valinn besti 6. maðurinn í deildinni. Þrátt fyrir það er ekki talið að Lakers þurfi að greiða honum mjög há laun miðað við það sem gengur og gerist í deildinni. Harrell þótti ekki standa undir væntingum í úrslitakeppninni og hefur það líklega dregið úr eftirspurninni.

Þjóðverjinn Dennis Schröder er einnig kominn til Lakers eftir að hafa skorað 19 stig að meðaltali hjá Oklahoma City Thunder. Danny Green fer frá Lakers til Oklahoma. Schröder þarf ekki að keppa við Rajon Rondo hjá Lakers því Rondo er farinn til Atlanta Hawks. Schröder gerði gæfumuninn fyrir Þjóðverja gegn Íslendingum á EM í Berlín árið 2015. 

Rajon Rondo hefur orðið meistari með bæði Boston og Lakers …
Rajon Rondo hefur orðið meistari með bæði Boston og Lakers en heldur nú til Atlanta. AFP

Þar sem Danny Green er farinn fær Lakers til sín Wesley Matthews frá Milwaukee Bucks en Matthews er með 38% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á NBA-ferlinum. 

Áður hefur verið sagt frá því að Lakers nældi í Spánverjann reynda Marc Gasol sem ætti að styrkja vörnina hjá liðinu. 

Slatti af leikmönnum hafa farið á milli liða á frjálsri sölu eins og gengur. NBA sérfræðingar klóra sér mest í kollinum yfir því að Gordon Hayward fékk risasamning hjá Charlotte Hornets.  Hayward lék vel með Utah Jazz en náði ekki að fylgja því eftir hjá Boston Celtics þar sem hann lék síðustu ár. Hayward er þrítugur og fær um sextán milljarða fyrir fjögur ár hjá Charlotte samkvæmt frétt á nba.com. 

Gordon Hayward.
Gordon Hayward. AFP
mbl.is