Um 60 milljarðar í laun á ferlinum

LeBron James.
LeBron James. AFP

Bandaríski körfuboltamaðurinn LeBron James  mun hafa fengið greidda um 60 milljarða íslenskra króna í laun frá þeim NBA-liðum sem hann hefur spilað fyrir þegar samningur hans við LA Lakers rennur út árið 2023. 

Ferill James er langur en þá verða liðnir tveir áratugir síðan hann kom inn í deildina. Áður hefur hann leikið með Cleveland Cavaliers og Miami Heat. Hér má nefna að íþróttastjörnur eins og James geta svo fundið fleiri matarholur ef þeim sýnist svo í tengslum við auglýsingasamninga og þess háttar. Hér eru einungis launagreiðslur frá NBA-liðunum. 

James er 35 ára og Lakers samdi við hann á dögunum en samningurinn hefði runnið út næsta sumar. Fyrir árin tvö sem bætt er við fær hann um 85 milljónir dollara eða rúmlega tíu milljarða. 

mbl.is