Körfuboltinn fór af stað með látum

Shawn Glover og Jakob Örn Sigurðarson í baráttunni í Vesturbænum …
Shawn Glover og Jakob Örn Sigurðarson í baráttunni í Vesturbænum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildin, fór af stað með látum en önnur umferð deildarinnar hófst í gær, hundrað dögum eftir að Þór á Akureyri tók á móti Keflavík í lokaleik fyrstu umferðar deildarinnar í Höllinni á Akureyri.

Spennan var rafmögnuð í Vesturbænum þar sem Íslandsmeistarar síðustu sex ára í KR tóku á móti meistaraefnunum í Tindastóli.

Liðin hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár og háð harða baráttu um Íslandsmeistaratitilinn en liðin mættust í úrslitum Íslandsmótsins tímabilið 2014-15 og 2017-18. KR hafði betur í bæði skiptin, 3:1.

Lið Vesturbæinga var talsvert breytt frá fyrstu umferðinni þar sem liðið tapaði á heimavelli fyrir Njarðvík, 92:80, en Roberts Stumbris og Ante Gospic voru báðir horfnir á braut. Í stað þeirra var mættur Tyler Sabin frá sænska úrvalsdeildarliðinu Wetterbygden Stats en hann átti sannkallaðan stórleik og skoraði 47 stig.

Tindastóll mætti með óbreyttan leikmannahóp úr fyrstu umferðinni en Sauðkrækingar náðu yfirhöndinni snemma leiks og leiddu með sex stigum í hálfleik, 61:55.

Tindastóll jók forskot sitt um tvö stig í þriðja leikhluta en í fjórða leikhluta komust KR-ingar yfir, 95:91, þegar tæplega þrjár mínútur voru til leiksloka.

Stólarnir reyndust hins vegar sterkari á lokamínútunum og innbyrtu sinn fyrsta sigur á tímabilinu sem mun eflaust gefa þeim mikið sjálfstraust, farandi inn í næstu leiki, en Shawn Glover átti stórleik fyrir Tindastól og skoraði 30 stig.

Íslandsmeistarar KR hafa hins vegar tapað báðum leikjum sínum til þessa í deildinni og bíða ennþá eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert