Sigurganga meistaranna stöðvuð

Wesley Matthews og félagar í Los Angeles Lakers töpuðu loks …
Wesley Matthews og félagar í Los Angeles Lakers töpuðu loks í nótt. AFP

Sjö leikja sigurganga NBA-meistaraliðsins í Los Angeles Lakers var stöðvuð í nótt er liðið laut í lægra haldi fyrir Denver Nuggets 122:105. Til að gera vont verra þurfti lykilmaður meistaranna að yfirgefa völlinn meiddur áður en leik lauk.

Nikola Jokic var með atkvæðameiri mönnum í nótt, skoraði 23 stig, tók sextán fráköst og gaf tíu stoðsendingar fyrir Denver en þetta var sjötta þrefalda tvennan hans á leiktíðinni. Þá skoraði Jamal Murray 25 stig fyrir heimamenn sem sitja í 7. sæti vesturdeildarinnar og hafa nú unnið þrjá í röð. Los Angeles er í öðru sæti, með 21 sigur og sjö töp, en LeBron James var stigahæstur liðsins með 22 stig. Þá var Anthony Davis með 15 stig en hann gat ekki klárað leikinn vegna meiðsla.

Þá vann Phoenix Suns sinn sjötta leik í röð er liðið lagði Orlando Magic að velli, 109:90. Devin Booker var með 27 stig og Mikal Bridges 21 en í liði Orlando skilaði Terrence Ross 23 stigum. Þá dugði frábær leikur Luka Doncic ekki hjá Dallas Mavericks sem tapaði 121:118 gegn Portland Trail Blazers. Doncic skoraði 44 stig gegn Damian Lillard og félögum en Lillard var með 34 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt
Charlotte Hornets - San Antonio Spurs 110:122
Detroit Pistons - New Orleans Pelicans 123:112
Toronto Raptors - Minnesota Timberwolves 112:116
Dallas Mavericks - Portland Trail Blazers 118:121
Oklahoma City Thunder - Milwaukee Bucks 114:109
Phoenix Suns - Orlando Magic 109:90
Denver Nuggets - Los Angeles Lakers 122:105
Los Angeles Clippers - Cleveland Cavaliers 128:111
Sacramento Kings - Memphis Grizzlies 112:124

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert