„Skot sem ég hef oft tekið áður“

Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. mbl.is / Hari

Jakob Örn Sigurðarson reyndist KR mikilvægur þegar liðið vann fyrsta leikinn gegn Val í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gærkvöldi. 

KR vann 99:98 eftir framlengdan leik. Jakob knúði fram framlengingu með því að setja niður þriggja stiga skot þegar 25 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma. Valur tapaði þá boltanum og KR fór fram í eins konar hraðaupphlaup. Jakob kom sér fyrir vinstra megin fyrir utan þriggja stiga línuna og setti skotið niður enda búinn að setja niður ófá mikilvæg skot á löngum ferli. Ef til vill hefði verið hægt að keyra að körfunni og ná í auðveld tvö stig. Kom ekkert annað til greina en að taka þriggja stiga skot?

„Í rauninni ekki. Ég hljóp alla vega fram til að stoppa fyrir utan þriggja stiga línuna. Mér fannst Ty tímasetja sendinguna nokkuð vel og ég fékk því boltann í góðum takti. Þetta er skot sem ég hef oft tekið áður og í rauninni kom ekkert annað til greina en að skjóta. Ég hafði ákveðið í hausnum að fengi ég boltann og sæi körfuna vel þá ætlaði ég að skjóta,“ sagði Jakob en fleiri frábærar skyttur eru í KR-liðinu eins og Brynjar Þór Björnsson, Helgi Már Magnússon, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Matthías Orri Sigurðarson og Björn Kristjánsson. En svo er KR einnig með Tyler Sabin sem skoraði sigurkörfuna með þriggja stiga skoti þegar 5 sekúndur voru eftir af framlengingunni? Sabin virðist vera hálfgerður galdrakarl á vellinum. 

Tyler Sabin er hálfgerður galdrakarl á körfuboltavelli.
Tyler Sabin er hálfgerður galdrakarl á körfuboltavelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já hann er það algerlega. Hann er ekki bara skorari heldur getur hann búið til skotfæri upp úr engu og sett skotin niður. Hann er með ágæta skotnýtingu í hálfopnum skotum sem er rosalega mikilvægt fyrir okkur. Jordan hjá Val er alveg eins leikmaður því hann getur sett niður slík skot. Það er svo þægilegt að geta leitað til leikmanns eins og Ty þegar ekkert er að gerast í sókninni vegna þess að hægt er að treysta því að hann búi eitthvað til. Það sást í lokin þegar hann skoraði sigurkörfuna að það var ekkert í gangi þannig séð. En hann gat búið til smá rými og gat sett erfitt skot niður en samt skot sem hann hefur vanist að taka,“ útskýrði Jakob. 

Hann segir erfitt að benda á hvað KR hafi haft fram yfir Val í ljósi þess hve jafn leikurinn var. „Það er ekki hægt að benda á neitt sérstakt. Við spiluðum ágætlega eftir okkar skipulagi og því sem við höfðum ákveðið fyrir leikinn. Valsmenn brugðust ágætlega við því og úr varð jafn og góður leikur fyrir vikið. Það var nánast ekkert sem skildi að og það sáu allir sem horfðu á leikinn. Að ná í sigur gegn góðu liði á útivelli er alltaf rosalega sterkt og sýnir að við tókum fínar ákvarðanir í lokin. Þú vinnur ekki erfiða leiki eins og þennan án þess að vera sterkur andlega og taka góðar ákvarðanir,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson í samtali við mbl.is. 

Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is