Framlengja þurfti dramatískan fyrsta leik Vals og KR

Tyler Sabin skoraði sigurkörfuna í kvöld þegar 5 sekúndur voru …
Tyler Sabin skoraði sigurkörfuna í kvöld þegar 5 sekúndur voru eftir af framlengingunni og skoraði 28 stig alls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR náði forystunni gegn Val í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. KR vann eftir framlengdan leik 99:98. 

Valur hafnaði í fjórða sæti Dominos-deildarinnar og KR í fimmta sæti. Valur á því oddaleik í rimmunni ef á þarf að halda. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslitin.

Leikurinn var æsispennandi frá upphafi til enda og að stærstu leyti frábærlega spilaður. KR var yfir 50:49 að loknum fyrri hálfleik og að loknum venjulegum leiktíma var staðan 87:87 og því þurfti að framlengja til að knýja fram úrslit. 

Valur var tveimur stigum yfir 98:96 þegar KR fór í sókn. Voru þá 20 sekúndur eftir. Tyler Sabin setti niður þriggja stiga skot þegar fimm sekúndur voru eftir. Tryggði þar með KR sigurinn því þriggja stiga skot Pavels Ermolinskij á lokasekúndunni geigaði. 

Leikur sem bauð upp á allt

Leikurinn var frábær skemmtun og hafði svo gott sem allt sem íþróttaáhugamenn vilja sjá. Geysilega vel mönnuð lið, gamall rígur á milli félaganna í íþróttum, tengingar á milli leikmanna og þjálfara liðanna, skemmtilegur leikstíll hjá báðum liðum, spenna frá upphafi til enda og dramatískar lokasekúndur. Úrslitakeppnin byrjar með látum og Íslandsmeistarar síðustu sex skipti eru komnir yfir gegn Val og eiga heimaleik í næsta leik. En það er eiginlega alveg glatað að annað hvort þessara liða verði úr leik þegar undanúrslitin taka við. 

Ekki er auðvelt að gera leik sem þennan upp með því að benda á hvar úrslitin réðust. Leikurinn var að langmestu leyti hnífjafn og liðin skiptust á að komast yfir. Í framlengingunni setti Sabin sitt skot niður en Pavel ekki. Undir lok venjulegs leiktíma setti Jakob sitt skot niður en skot Jóns Arnórs skrúfaðist nánast upp úr hringnum. KR-ingar voru með 59% hittni utan þriggja stiga línunnar og 51% hittni alls. Það skipti auðvitað máli þegar uppi var staðið. 

Kristófer Acox treður í hraðaupphlaupi í fyrri hálfleik.
Kristófer Acox treður í hraðaupphlaupi í fyrri hálfleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir skrítið tímabil sem litast af heimsfaraldrinum og lítilli stemningu þá byrjar úrslitakeppnin með flugeldasýningu. Alla vega hvað þessa rimmu varðar. Nokkuð sem maður sá ekki endilega fyrir. Í fyrra var Íslandsmótinu slaufað og tímabilið í vetur var óvenjulegt eins og í fleiri íþróttum. Maður vissi því eiginlega ekki hverju maður mátti eiga vona á. 

Eitt hefur maður þó lært eftir að hafa fjallað um úrslitakeppnina í áraraðir. Maður afskrifar ekki gömlu refina sem reynst hafa sögulega góðir leikmenn í körfuboltasögunni á Íslandi. Hvort sem það eru Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij hjá Val eða Helgi Már Magnússon, Jakob Örn Sigurðarson og Brynjar Þór Björnsson hjá KR.

Mikið álag á tæplega fertugum mönnum

Margir þeirra voru mjög góðir í kvöld. Jakob reyndist KR til að mynda afar mikilvægur. Hann jafnaði með þriggja stiga skoti þegar 25 sekúndur voru eftir og kom KR í framlengingu. Hann setti einnig niður þrist í fyrstu sókn í framlengingunni en Jakob nýtti þrjú af fimm skotum fyrir utan þriggja stiga línuna. Auk þess spilaði hann mjög góða vörn og náði oft að trufla Jordan Roland hjá Val. Roland hafði einmitt komið Val tveimur stigum yfir þegar 20 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Roland skoraði 17 stig þegar uppi var staðið en var mjög lengi í gang. 

Roland og Tyler Sabin hjá KR eru óútreiknanlegir og skoruðu mikilvægar körfur þegar á reyndi í framlengingunni. Þeir verða áfram áberandi í næstu leikjum enda hálfgerðir galdrakarlar þegar þeir eru vel upplagðir. 

Darri Freyr Atlason þjálfari KR vann sinn fyrsta leik í …
Darri Freyr Atlason þjálfari KR vann sinn fyrsta leik í úrslitakeppni karla sem þjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sabin skoraði 28 stig fyrir KR en þótt hann sé áberandi þá lögðu mjög margir í púkkið hjá KR. Helgi Már spilaði ekki nema fimmtán mínútur en var mjög góður. Setti niður þrjú af fjórum skotum fyrir utan þriggja stiga línuna. Helgi er draumaleikmaður til að hafa í mikilvægum leikjum. Hann virðist alltaf vera einbeittur og rétt stilltur fyrir utan að hafa klókindin og keppnisskapið sem þarf. 

Jón Arnór þurfti nú að leika á móti þessum gömlu vopnabræðrum sínum sem hann var lék með í öllum yngri flokkum, meistaraflokki, yngri landsliðum og A-landsliði. Jón ætlaði sér  greinilega að vinna þennan leik og átti mjög góðan leik. Spilaði frábærlega í vörninni og skoraði 19 stig. Jón spilaði 30 mínútur og Jakob spilaði 32 mínútur í jöfnum og erfiðum leik. Menn sem eru tæplega fertugir. Spurning hvaða áhrif það hefur í næstu leikjum og hvort þeir geti haldið þetta út. 

Góð auglýsing fyrir íþróttalífið

Hjá Val fannst mér Hjálmar Stefánsson bestur. Hann gaf á vissan hátt tóninn í vörninni hjá Val með mikilli baráttu. Náði fráköstum og komst inn í sendingar. Hjálmar skoraði 15 stig. Það eina sem setja mætti út á var að hann brenndi af þremur vítaskotum í framlengingunni. Í leikjum sem þessum er erfitt að horfa fram hjá því. Þar hljóp einhver Nick Anderson í hann. Kristófer Acox var mjög áberandi í fyrri hálfleik en var minna áberandi þegar á leið. Skoraði 20 stig og tók 11 fráköst þegar uppi var staðið. 

Sama má segja um Val eins og KR í kvöld að margir lögðu í púkkið enda er breiddin afar góð í liðunum. 

Þrátt fyrir að einungis 300 áhorfendur gætu sótt leikinn tókst …
Þrátt fyrir að einungis 300 áhorfendur gætu sótt leikinn tókst hörðustu stuðningsmönnum KR að láta vel í sér heyra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikurinn var góð auglýsing fyrir íslenskar íþróttir og í raun synd að Valur og KR skuli takast á þegar fáir áhorfendur eru leyfðir vegna fjöldatakmarkana. Við hefðbundnar aðstæður hefðu líklega tvö þúsund manns viljað sjá næsta leik í Frostaskjólinu. Stuðningsmenn KR létu þó vel í sér heyra í kvöld. Þar eru vanir menn sem mæta í búningum, syngja og eru með læti. Kannski ekki eins fyndnir og stundum áður en náðu alla vega að skapa stemningu. Þar eiga stuðningsmenn Vals nokkuð í land og heimavöllurinn var ekki ýkja mikill heimavöllur í kvöld. 

Valur - KR 98:99

Origo-höllin Hlíðarenda, Dominos deild karla, 16. maí 2021.

Gangur leiksins:: 4:7, 14:15, 19:15, 23:21, 27:29, 31:35, 39:44, 49:50, 54:55, 62:59, 64:63, 70:71, 70:71, 75:78, 81:84, 87:87, 92:94, 98:99.

Valur: Kristófer Acox 20/11 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 19, Jordan Jamal Roland 17/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 15/4 fráköst, Miguel Cardoso 10/4 fráköst, Pavel Ermolinskij 8/7 fráköst/9 stoðsendingar, Sinisa Bilic 7/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 2.

Fráköst: 24 í vörn, 13 í sókn.

KR: Tyler Sabin 28/6 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 13/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 12/4 fráköst, Brandon Joseph Nazione 12/6 fráköst, Zarko Jukic 10/8 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 6, Björn Kristjánsson 3, Brynjar Þór Björnsson 3.

Fráköst: 25 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Aron Rúnarsson.

Áhorfendur: 300

Jón Arnór Stefánsson sækir að körfu KR á Hlíðarenda í …
Jón Arnór Stefánsson sækir að körfu KR á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Valur 98:99 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is